Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fáum sennilega kröfuharðari gesti

05.07.2019 - 16:24
Ferðamenn fara út á ísinn við Jökulsárlón. 28.11.2017.
 Mynd: Ragnhildur Lind Borgarsdóttir
Vatnajökulsþjóðgarður fær sennilega kröfuharðari gesti nú þegar garðurinn er kominn á heimsminjaskrá UNESCO,  Menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna. Þetta segir Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri þjóðgarðsins.

Ekki sé sjálfgefið að meira fjármagn fáist, en stjórnvöld hljóta að hafa áhuga á að hafa hlutina í lagi.

Meiri athygli heima og erlendis

„Í sjálfu sér mun þetta ekki breyta daglegum rekstri. Þetta er fyrst og fremst mikill heiður og viðurkenning fyrir þjóðgarðinn og mun væntanlega leiða til þess að þjóðgarðurinn fær meiri athygli bæði innanlands og erlendis" segir Magnús Guðmundsson.  „Og við megum kannski búast við því að við fáum kröfuharðari ferðamenn til okkar sem vilja vita meira og fá meiri upplýsingar og fræðslu. Svo er þetta auðvitað ákveðin gæðavottun þar sem við þurfum að gæta mjög vel að ákveðnum tékklista sem við þurfum að hafa í lagi".

Stjórnvöld hljóta að sýna áhuga 

Magnús segir ekki sjálfgefið að meira fjármagn fylgi útnefningunni. „En ríkisstjórnin og stjórnvöld stóðu að þessari umsókn og hafa örugglega meiri áhuga á að hafa hlutina í mjög góðu lagi í Vatnajökulsþjóðgarði, eins og á Þingvöllum og í Surtsey, sem eru líka á heimsminjaskrá UNESCO".

Þannig að það verður nóg að gera hjá starfsfólki þjóðgarðsins á næstunni?

„Já. Það er reyndar mjög mikið að gera nú þegar en þetta hvetur okkur líka. Þetta er hvatning og viðurkenning á því starfi sem þegar hefur átt sér stað".

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV