Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fátítt að hjón hugi að jöfnun lífeyrisréttinda

21.08.2018 - 09:23
Mynd: flickr.com/[email protected]/ / flickr.com/[email protected]/
Það getur skipt hjón og sambúðarfólk miklu máli að semja um skiptingu lífeyrisréttinda. Þetta er úrræði sem fáir hafa nýtt sér en umræða hefur skapast um eftir að Hólmar Svansson fjallaði um þetta á Facebook. Frænka hans missti eiginmann sinn óvænt en þar sem þau höfðu gert samning um skiptingu lífeyrisréttinda stóð hún mun betur en ella.

Samningar um skiptingu lífeyrisréttinda eru frjálsir samningar sem bjóðast hjónum og sambúðarfólki og fela í sér skiptingu á þeim lífeyrisréttindum sem fólk hefur unnið sér inn á þeim tíma sem það hefur verið í sambúð, að sögn Þóreyjar S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóða. Rætt var við hana í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

„Það getur verið mjög mikilvægt fyrir fólk að gera þetta ef það er með ólíkar tekjur og verkaskiptingunni er kannski þannig háttað að annar er mikið heima og kannski í hlutastarfi.“ Þá geti fólk gert slíkan samning til að jafna lífeyrinn sinn. Ef sá sem fellur fyrr frá er með hærri tekjur en eftirlifandi maki geti skipt miklu máli að hafa gert slíkan samning.

Þórey segir sorglegt að oft hugi fólk ekki að þessum málum fyrr en við skilnað. Úrræðið sé þó ekki hugsað fyrir fólk sem hafi ákveðið að skilja. „Ég held að fyrir hjón og fólk í sambúð sé mjög mikilvægt að huga að þessu. Ég vil samt leggja áherslu á að fólk þarf ráðgjöf og þarf að leita til síns lífeyrissjóðs og fá leiðbeiningar um það hvernig að þessu er staðið og hvort þetta henti.“ Þórey segir að þegar tekjur fólks séu nokkuð jafnar sé ekki þörf fyrir slíka skiptingu. Eins sé það þannig hjá starfsfólki sveitarfélaga og ríkisins sem hafi greitt í gamla sjóði, þá sé makalífeyrir sterkur og því ekki þörf á að skipta lífeyrisréttindum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir