Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fastur á milli heiða í fimm daga

12.04.2017 - 09:53
Þegar vegurinn yfir Hrafnseyrarheiði var mokaður komst franskur ferðamaður leiðar sinnar á ný. Hann hafði verið fastur á milli heiða í Arnarfirði í fimm daga.

Thomas náði í bílinn sinn sem var reyndar búinn að vera í Arnarfirði síðan laugardaginn 1. apríl. „Ég kom hingað laugardagskvöld, það snjóaði alla nóttina og sunnudagsmorgun komst ég ekki í burtu.“

Thomas lokaðist inni á þeim 20 kílómetra kafla við norðanverðan Arnarfjörð sem liggur á milli Hrafnseyrar- og Dynjandisheiða. Heiðarnar eru ekki mokaðar yfir háveturinn, einungis þegar snjólétt er.

Thomas sem svaf í bílnum segist ekki hafa vanhagað um neitt, en hann missti reyndar af fluginu sínu heim. „Ég var undirbúinn með mat og drykk fyrir alla ferðina. Svo það var allt í lagi. - Ég beið, ég las, ég vann í tölvunni minni og lét tímann líða.“

„Ég beið svo í fimm daga því að ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Og á endunum fékk ég far með bát á Bíldudal. Þar sem ég beið yfir helgina til að geta komið í dag,“ segir Thomas.

Thomas fékk far með póstbátnum sem fer öðru hverju í Mjólkárvirkjun. Nú hafa heiðarnar verið mokaðar og því komst Thomas leiðar sinnar.

Moksturskappi til margra ára segir ekki óalgengt að rekast ferðamenn á heiðunum við mokstur. „Þeir verða soldið súrir ef þeir þurfa að snúa við. Langt að keyra til baka ef þeir eru að fara í Baldur, það eru kannski 600 kílómetrar,“ segir Gunnar Gísli Sigurðsson.

Thomas segir að bágri upplýsingagjöf um sé ekki um að kenna að hann festist þessa daga. „Upplýsingarnar voru í lagi, en það er undir mér komið að skoða þær.“