Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fastað í Borgartúni

Mynd: Wikimedia / Wikimedia

Fastað í Borgartúni

17.03.2019 - 13:00

Höfundar

„Fastan er svo yndislega á skjön við allt sem nútímasamfélag hringsnýst um“, segir Halldór Armand í pistli vikunnar. „Hún er andstæða þess að berjast við að verða betri útgáfa af sjálfum sér, að reyna að fiska fleiri læk á netinu.“

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég æfði fótbolta þegar ég var yngri með liði í Reykjavík og við áttum alltaf í miklum vandræðum með annað lið frá höfuðborginni, nefnilega Fylki. Við töpuðum hverjum úrslitaleiknum á fætur öðrum á móti þessum strákum úr Árbænum. Þetta voru alltaf tæpir ósigrar eftir hnífjafna leiki. 1-0. 3-2. 2-1. Eftir þessi töp þá var þjálfarinn okkar alltaf með sömu skilaboðin. Þau voru svohljóðandi: „Jæja, strákar, þá er bara einum leik styttra í að við vinnum þá.“ Það var hughreystandi að heyra þetta, kannski var þetta hughreystandi einmitt vegna þess að við vorum fyllilega meðvitaðir um að þetta var jú … ekki satt. Þessi tapleikir höfðu ekkert spásagnargildi.

Ég man eftir því að hafa setið þarna 13 ára gamall kófsveittur í klefanum og losað um legghlífarnar í gras- og hitakremslyktinni með sturturnar hvissandi einhvers staðar í bakgrunni og hugsað með mér: Nei, það styttist ekki nauðsynlega í að við vinnum þá þótt við höfum tapað þessum leik. Það væri ágætt ef svo væri, það væri ágætt ef heimurinn virkaði þannig að hver ósigur væri forstofa upprisu af einhverjum toga. En það er víst ekki svo. Við hefðum getað spilað við Fylki á hverjum einasta degi til eilífðarnóns og mögulega aldrei unnið.

Ástin á ósanngirninni

Mér varð hugsað til þessara tapleikja gegn Fylki seint á tíunda áratugnum þegar ég horfði á nokkra þætti af nýrri seríu sem kallast Losers. Mér fannst við hæfi að kíkja á þessa þætti nú þegar langafasta er hafin. Þættirnir fjalla um fólk sem hefur tapað illa í íþróttum og þykja nokkuð merkilegir af þeim sökum, enda koma þeir frá Bandaríkjunum, stað sem elskar ósanngirni, misskiptingu auðs og sigurvegara heitar en nokkur annar, þar sem hugmyndafræðilega goðsögnin um ameríska drauminn er notuð til að telja almenningi trú um að hann eigi sér alltaf einhverja vonarglætu um að komast upp á stall með fólki sem fær hlunnindi sín gefins. Einhvern veginn fannst mér ólíklegt að Netflix-þættir myndu fjalla um raunverulega lúsera og það reyndist rétt. 

Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum þegar ég uppgötvaði fljótt að Losers eru ekki þættir um ósigra, heldur upprisur, sem sagt yfirgengilegt hæfileikafólk sem lærir einhverja lexíu af því að verða fyrir mótlæti. Fyrsti þátturinn er um boxara sem er sleginn í rot í bardaga um heimsmeistaratitil og fer síðan að vinna í Hollywood þar sem hann finnur loksins sjálfan sig. Ég vildi hins vegar sjá þátt um einhvern sem dreymir um að verða boxari en nær því aldrei. Annar þátturinn er um brjóstumkennanlegt breskt fótboltalið sem getur ekki neitt og er í fallbaráttu, en nær svo fyrir kraftaverk að halda sér í deildinni. Ég vildi hins vegar fá að sjá þátt um lélegt lið í fallbaráttu, sem fellur svo bara.

Þriðji þátturinn er um heimsklassaskautadrottningu sem nýtur aldrei almennilega sannmælis vegna rasisma innan skautaheimsins, en vinnur samt skrilljón titla og er augljóslega miklu hæfileikaríkari en andstæðingar hennar og endar síðan á því að finna ástina og láta gott af sér leiða. Ég vildi hins vegar fá að sjá þátt um skautadrottningu sem er númer 950 á heimslistanum. Fjórði þátturinn er um lúser sem endar á því hafa rosalega jákvæð áhrif á íþróttina sem hann ástundar. Ég vildi hins vegar fá að sjá þátt um lúser sem hefur ekki rosalega jákvæð áhrif á íþróttina sem hann ástundar, heldur neikvæð. 

Allt er þetta gott og blessað. En ég vildi fá að heyra í alvöru lúserum – fólkinu sem tapaði án afláts fyrir Fylki, alla tíð og án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, fékk aldrei upprisu, en lærði kannski eitthvað nýtt um sig sjálft eða heiminn í leiðinni, einmitt þess vegna. Losers eru skemmtilegir og jú, að einhverju leyti öðruvísi þættir, en undirliggjandi skilaboð þeirra eru hins vegar þau sömu og komu frá þjálfaranum mínum í klefanum. Ósigurinn í dag er bara frestun á öðrum og stærri sigri á morgun. Losers boða með öðrum orðum huggandi ósannindi. 

Járnaðir úlnliðir

Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um ósigurinn og segja má að heimspeki hans sé sú sem boðuð hefur verið í þessum klefa Lestarinnar, að mannleg tilvera sé einn langur leikur við Fylki, og það horfast í augu við sinn eigin vanmátt, glundroða mennskunnar og óreiðu tilverunnar sé lykillinn að lífshamingjunni, vegna þess að þannig og aðeins þannig læri maður raunverulega að meta gjafir og gleðistundir lífsins, að þannig kunni maður að meta þau verðmætu augnablik þegar sólin skín og sjái þau ekki sem sjálfsagðan hlut. Ósigursheimspekin – meðvitundin um það hversu brothætt mannleg tilvera er –  er hins vegar ekki eitthvað sem fer mikið fyrir í nútímanum.

Ósigurinn er litinn hornauga. Lúserinn fýkur afskiptur um tilveruna eins og rifinn plastpoki á bílastæði. Þar kemur ýmislegt til. Í markaðshagkerfi eru sigurvegarar lofsungnir og dýrkaðir án afláts. Reglurnar eru sveigðar í þeirra þágu og þeir hneigjast jafnframt til að fá allt, en þeir sem tapa ekkert. Valdamesti maður í heimi er náungi sem talar um sjálfan sig sem sigurvegara og boðar þá tvískiptu heimsmynd að aðeins séu til tvær tegundir af fólki, sigurvegarar og lúserar. Fólki er sagt að elta drauma sína, gera það sem það elskar og svo framvegis, stefna til sigurs í heimi þar sem velgengni er mæld í veraldlegum gæðum. Sigurvegararnir okkar hafa unnið fyrir hlunnindum sínum. Um það verður ekki efast. 

Og ef þú tapar síðan, þá er það vitaskuld bara þér einum eða einni að kenna. Ef þú berst í bökkum, sokkinn upp í hnésbætur í fátæktarmýrinni, þá er sökin þín. Ef þú vinnur tvær vinnur, á hóteli á daginn og í mötuneyti á kvöldin, svo þú eigir fyrir því að leigja þér húsnæði í Reykjavík og senda barnið þitt í fimleika, þá er það vitaskuld á þína ábyrgð að finna þér betur launaða vinnu. Ef þú ert réttindalaus hælisleitandi, hluti af þeim verst settu í samfélaginu, og færð þá flugu í hausinn að þú getir mætt með pappakassa á Austurvöll til að biðja um aðgang að heilbrigðisþjónustu, þá ertu auðvitað bara að biðja um að fá gas í augun og járn um úlnliðinn. 

Krossfestingartúlkun Samtaka atvinnulífsins

Nú á föstunni er við hæfi að minnast þess að í bakgrunni þessarar tvískiptu heimsmyndar nútímans blasir krossfestingin við. Yfir sviðinu, yfir stöðugleikanum á vinnumarkaði, yfir þjóðarkökunni sjálfri, hangir hinn eini sanni lúser, sem negldur var saklaus á kross og myrtur. Ecce homo – sjáið manninn. Það er algjörlega magnað að hugsa til þess að vestræn siðmenning sé grundvölluð á þessari hryggðarmynd. Þyrnikórónu á höfði smánaðs öreiga sem hangir dáinn á krossi með edik í kverkunum, hráka og blóð seytlandi niður leggina. Fastan snýst um að fletta ofan af yfirborðslögum tilverunnar til að minna sig á hvað býr að baki, hvað er í kjarnanum, moldin og rykið, til að upplifa hina hráu mennsku, til að horfast af auðmýkt í augu við sína eigin smæð í óskiljanlega stórbrotnum alheimi, til að feisa nakinn ósigurinn, sem geymir eða geymir ekki heimspekilega vísbendingu um það hvernig menn geta risið upp úr ösku eigin máttleysis gegnum ást sína á náunganum – og það algjörlega óháð metafýsískum spurningum um það hvort Stóri G sé til eða ekki.

Fastan er svo yndislega á skjön við allt sem nútímasamfélag hringsnýst um. Hún er andstæða þess að berjast við að verða betri útgáfa af sjálfum sér, að reyna að fiska fleiri læk á netinu, að skara eld að sinni köku á kostnað annarra. Það er óhugsandi að Samtök atvinnulífsins myndu nokkurn tímann aðhyllast krossfestinguna, að Borgartúnið myndi teyga edik eftir hádegi á föstudag. Fastan gerir þvert á móti lúserum kleift að átta sig á grundvallarsannleika sem sigurvegarar geta aldrei fyllilega skilið, að þeir geta verið elskaðir nákvæmlega eins og þeir eru, en ekki fyrir sem þeir eiga, að til er fólk sem kemur óumbeðið með þeim á Austurvöll og lætur handtaka sig fyrir málstað þeirra, að mennskan – afhjúpuð, nakin og hrá – sé mikilfengleg, falleg og uppfull af kærleika og að það sé einmitt á lægstu augnablikunum, í smánuninni, niðurlægingunni, 25. tapinu gegn Fylki í röð, sem þessi sannleikur opinberast. 

Kenn oss að telja daga vora,

að vér megum öðlast viturt hjarta.

Metta oss að morgni með miskunn þinni,

að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

Tengdar fréttir

Pistlar

Draumur Gunnars á Hlíðarenda við Þjórsá

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?

Pistlar

Svejk, alvara og alvöruleysi

Pistlar

Allar manneskjur eru ólöglegar