„Farþegar almannasamgangna annars flokks“

10.01.2020 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Fjögurra manna fjölskylda hefur verið veðurteppt á Akureyri í fjóra daga, en fjölskyldan ætlaði að ferðast með Strætó til Reykjavíkur. Fjölskyldufaðirinn veltir fyrir sér hvers vegna ekki var bætt við ferð utan áætlunar, þegar leiðin varð greið. Upplýsingafulltrúi Strætó segir að öryggi farþega sé alltaf í fyrirrúmi.

Strætó felldi niður ferðir frá Höfn til Reykjavíkur og milli Akureyrar og Reykjavíkur í dag vegna veðurs og færðar. 

Veðurteppt síðan á þriðjudag

Andreas Macrander var að koma frá Þýskalandi ásamt fjölskyldu sinni með Norrænu á mánudag. Þaðan fóru þau með Strætó til Akureyrar. Þar hafa þau verið veðurteppt síðan, þar sem öllum ferðum strætó frá Akureyri til Reykjavíkur hefur verið aflýst. Andreas hefur meðal annars unnið verkefni um almenningssamgöngur fyrir Vegagerðina. Hann segist ekki skilja hvers vegna Strætó bætti ekki við ferð utan áætlunartíma í gærkvöldi þegar leiðin varð fær.

„Reyndar er engin kvöldferð Strætó á áætlun á fimmtudögum en ég benti Strætó á að athuga með að fara aukaferð í gærkvöld ef aðstæður leyfðu, en það var ekki gert,“ segir Andreas.

Mestalla þessa viku hafa fjallvegir á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar verið lokaðir. Í gærkvöldi tókst loks að opna landleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar. „Nú eru meira en 250 bílar sem keyra um Öxnadalsheiði en engar strætóferðir. Þeir sem keyra í almenningssamgöngum eru bara annars flokks,“ segir Andreas. Fjölskyldan sér því fram á að vera föst á Akureyri til morguns. Andreas segir að þau vilji ekki nota flugsamgöngur vegna mengunaráhrifa, auk þess sem það myndi kosta þau næstum þrefalt meira að fljúga en fara með Strætó.

Öryggið í fyrirrúmi

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að öryggi farþega gangi framar öllu. Ekki hafi verið talið óhætt að leggja í ferðina þar sem færðin hefur verið erfið og veður eiga til að breytast hratt. Það sé í athugun að fara frá Akureyri klukkan 16:20 í dag, en það ræðst af veðri og færð.