Farþegabílar bannaðir í miðborginni

05.05.2017 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bílum sem taka fleiri en átta farþega og sérútbúnum fjallabílum verður bannað að aka um Þingholtin, Kvosina og gamla Vesturbæinn.

Fyrir tveimur árum var samþykkt að banna stórum rútum að aka um skilgreint svæði í Þingholtunum og gengur bannið nú því lengra bæði hvað varðar stærð ökutækja og svæðis.

Bannsvæðið nær nú frá Barónsstíg í austri að Ægisgötu í vestri og afmarkast af Hverfisgötu og Tryggvagötu í norðri og Eiríksgötu (sem nær frá Barónsstíg að Hallgrímskirkju), Njarðargötu (sem nær frá Hallgrímskirkju niður að Sóleyjargötu), Tjörninni, Vonarstræti og Túngötu. Heimilt verður þó að aka um Lækjargötu. Einungis einstefna verður heimil á stórum hluta þeirra akstursleiða sem afmarka bannsvæðið.

Safnstæðum verður fjölgað og innheimt verður af þeim gjald til að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði.

Samkvæmt greiningu verða 80% gistirýma í innan við 200 metra fjarlægð frá næsta safnstæði og 90% þeirra innan 300 metra.

Ragnhildur Zoëga situr í stjórn Íbúasamtaka miðborgarinnar. Hún segist ánægð með tillögurnar og þær ákveðinn áfangasigur. „Að okkar mati eru safnstöðvarnar óþarflega margar og við hefðum viljað hafa bannsvæðið stærra, að það næði í kringum alla miðborgina,“ segir hún. „Það er ekki spennandi fyrir íbúa Njarðargötu og Hverfisgötu að hafa rútuumferð fyrir utan gluggann hjá sér allan sólarhringinn. Við höfum gagnrýnt það að hér er verið að keyra ferðamenn alla leið heim í rúm, sem tíðkast ekki í öðrum borgum,“ segir Ragnhildur.

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að borgaryfirvöld víða um heim hafi hert reglur um umferð í miðborgum. Í Ósló er stefnt að því að banna alla bílaumferð í miðborginni fyrir árið 2019, í London er gjald á bíla sem aka inn í miðborgina og í Amsterdam er stefnt að því að innan nokkurra ára muni rútur leggja við borgarmörkin og ferðamenn noti aðra samgöngumáta til að ferðast til borgarinnar. Í Barcelona hefur bílastæðagjald á rútur hækkað nær tífalt og bannað er að fjölga gistirýmum í borginni. Róm mun innheimta gjald af rútum innan borgarmarkanna og banna þær eða takmarka á ákveðnum svæðum.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður rútufyrirtækisins Gray Line og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að með tillögunni gangi borgin lengra en tillögur ferðaþjónustunnar og íbúasamtakanna varðandi akstur um Aðalstræti, sem verður bannaður. „Við hefðum viljað halda þeirri leið, þar eru tvö stór hótel og tvær safnstöðvar. Sú umferð mun nú færast yfir á nálægar íbúagötur,“ segir hann.

Þórir segir að ferðaþjónustunni sé kappsmunað að starfa í sátt við íbúa miðborgarinnar og bendir á að upphaflegar tillögur um takmörkun umferðar í miðborginni hafi komið frá samtökunum.  

Fréttin hefur verið leiðrétt. Í fyrri útgáfu var sagt að bannið tæki gildi um næstu mánaðamót. Rétt er að borgarráð á eftir að fjalla um tillögurnar og það verður gert í næstu viku. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvenær bannið hefjist.

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg - RÚV
Litaða svæðið sýnir hvar rútum og farþegabílum með fleiri en átta farþega verður bannað að aka frá næstu mánaðamótum.
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi