Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Farið verður yfir mál „Bigga löggu“

23.11.2015 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögreglan hafi móttekið erindi frá Sveini Andra Sveinssyni, verjanda eins þeirra sem var sýknaður af ákæru um hópnauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. Þar krafðist Sveinn Andri þess að Birgir Örn Guðjónsson, lögreglumaður í Kópavogi, yrði beittur agaviðurlögum fyrir skrif sín um málið á Facebook-síðu sinni.

Í færslunni á Facebook kallaði Birgir Örn, sem er einnig þekktur undir nafninu „Biggi lögga“, piltana sem voru sýknaðir „nauðgara“. Hann breytti færslunni um klukkutíma seinna og felldi þar út þá setningu. Færslan vakti mikla athygli  en henni hefur verið deilt rúmlega fjórtán hundruð sinnum.  

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór með rannsókn málsins en sýknudómurinn hefur vakið hörð viðbrögð. Fréttastofa greindi frá því um helgina að vitni hefði breytt framburði sínum fyrir dómi en að þess hefði hvergi verið getið í dóminum.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Sigríður Björk að farið verði yfir atvik og metið hvort gripið verði til aðgerða af hálfu embættisins. Lögreglan hafi móttekið erindi sem varðar ummæli sem starfsmaður lögreglunnar „viðhafði á einkasíðu á samfélagsmiðli, vegna dóms sem féll nýverið í kynferðisbrotamáli sem embættið hafði áður til rannsóknar.“

Fréttastofa óskaði í framhaldinu eftir upplýsingum hvort lögreglan hefði sérstaka verkferla til að bregðast við ummælum sem lögreglumenn létu falla á samfélagsmiðlum. Sigríður sagði að skoða þyrfti þetta mál. „Og ég tel ekki tímabært að ræða það frekar á þessu stigi.“