Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Farið fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum

Mynd: Skjáskot / RÚV
Tveir skipverjar, sem handteknir voru í gær um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq, verða leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness klukkan hálf tólf og tólf. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Grímur segir að lögreglan fari fram á annaðhvort vikulangt eða tveggja vikna gæsluvarðhald en segir þó að menn eigi að forðast að lesa of mikið í það.

Tíðindamaður fréttastofu segir að annar skipverjanna sé kominn inn í dómsal en mennirnir tveir voru í yfirheyrðir til skiptis í nótt á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Yfirheyrslurnar fóru fram bæði á ensku og dönsku, að sögn verjanda eins þeirra, og þá var túlkur viðstaddur yfirheyrslurnar.

Skýrslutökur yfir þriðja manninum hófust á áttunda tímanum í morgun en enginn ákvörðun hefur verið tekin um hvort óskað verður eftir gæsluvarðhaldi yfir honum.

Grímur vildi í samtali við fréttastofu ekki segja hvort eitthvað haldbært hefði komið út úr yfirheyrslunum í nótt. Liðsmenn í  sérsveit ríkislögreglustjóra handtóku mennina um borð í grænlenska togaranum eftir að þeir höfðu verið fluttir þangað með þyrlu Landhelgisgæslunnar.  

Polar Nanoq kom svo til hafnar í Hafnarfjarðarhöfn klukkan 23 í gærkvöld og voru mennirnir þá leiddir frá borði. Lögreglan var með mikinn viðbúnað þegar mennirnir voru síðan fluttir á lögreglustöðina.

Grímur vildi í samtali við fréttastofu í morgun ekki gefa neinar upplýsingar um hvað hefði komið út úr yfirheyrslum yfir mönnunum né hvort þeir hefðu verið samstarfsfúsir. Þá vildi Grímur ekki tjá sig um hvort rannsókn á skipinu hefði leitt eitthvað í ljós.  Skipið er enn í umsjá íslenskra yfirvalda. 

Lögreglan hafði frest til hádegis til að taka ákvörðun um hvort hún myndi fara fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur.  Hún hefur frest fram til kvölds til að taka ákvörðun um gæsluvarðhald yfir þriðja manninum.