Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fara þarf í saumana á auðlindakaupum auðmanna

28.07.2018 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fara þarf rækilega í saumana á uppkaupum auðmanna á náttúruauðlindum, að mati landbúnaðarráðherra. Það sé hins vegar út af fyrir sig ekki slæmt að land gangi kaupum og sölum.

Uppkaup auðmanna á íslensku landi hafa nýverið komist aftur í kastljós fjölmiðla, ekki síst kaup breska auðjöfursins Jims Ratcliffes á gjöfulum laxveiðisvæðum í Vopnafirði. Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra segir umræðuna á margan hátt skiljanlega.

„Öllum Íslendingum þykir vænt um landið sitt. Það er hins vegar oft þannig engu að síður, þegar þessi umræða kemur upp, að þá gýs hún upp og menn sjá – ég segi ekki andskotann í hverju horni – en frekar gallana við það að land skuli ganga kaupum og sölum, frekar en kostina,“ segir hann.

Kristján segir grundvallaratriði að land- og fasteignaeigendur geti selt eignir sínar á sem bestu verði - hins vegar þurfi líka að tryggja að á Íslandi sé landrými og landgæði til að geta stundað sjálfbæran landbúnað.

Í ráðuneyti hans er hópur að vinna að endurskoðun laga um kaup útlendinga á bújörðum. Kristján segir að von sé á niðurstöðu þaðan um mánaðamótin ágúst september. Þangað til sé ótímabært að segja hvort víkka þurfi út athugunina á þessum málum. Mörg sjónarmið séu uppi í þessari umræðu.

„Og vandséð í rauninni á þessu stigi hvað það er sem er hinn sameiginlegi þráður í þeim sjónarmiðum nema einn, sem snýr að þeim auðlindum sem þarna eru undir. Það er ákveðin eðlileg og sjálfsögð, skynsamleg, innbyggð varðstaða við því að þær séu seldar undan íslenskum yfirráðum. Það er sjálfsagður hlutur í mínum huga að fara í það minnsta rækilega í saumana á slíku,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.