
Fara fram á leigunám ef Rarik bregst ekki við
Almannavarnanefndin hefur nefnt fjögur atriði sem þurfa tafarlausrar úrvinnslu, í ljósi þeirra „gríðarlega alvarlegu og fordæmalausu aðstæðna er sköpuðust hér“ í fárviðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku. Farið er fram á skrifleg svör frá ríkisstjórninni við athugasemdunum.
Í Skagafirði varð víðtækt og langvarandi rafmagnsleysi þegar stormurinn gekk yfir. Enn er flökt á rafmagni þar, viku eftir að stormurinn náði landi nyrðra.
Í tilkynningu á vef sveitarfélagsins Skagafjarðar er sagt frá því að almannavarnarnefndin fagni áformum ríkisstjórnarinnar um að starfshópur varpi ljósi á innviðabrest vegna veðursins.
Við val á þeim atriðum sem nefndin vill að leyst verði strax var horft til þess að flutningskerfi raforku á Sauðárkrók er ekki hringtengt. „[S]amkvæmt upplýsingum almannavarnarnefndar er það laskað eftir miklar viðgerðir og í mun verra horfi en fyrir hið umrædda stórviðri“.
Jákvætt að raflagnir fari í jörð
Nefndin segir það jákvætt að Sauðárkrókslína fari í jörð næsta sumar. Það eigi hins vegar ekki eftir að breyta því að hæglega geti hættuástand skapast á ný ef veður gerast válynd, enda er vetur varla hálfnaður.
Meðal þeirra atriða sem Skagafjörður fer fram á er að Tetra-sendir verði settur upp á láglendi í Skagafirði. Tetra-kerfið sem notað er í samskipti milli Neyðarlínunnar og lögreglu féll út á meðan óveðrið gekk yfir. Í yfirlýsingunni segir að það hafi eingöngu verið fyrir tilviljun að ekki hafi orðið manntjón þegar björgunarsveitarmenn þurftu að fara upp á Tindastól til að slá Tetra-sendinum inn á meðan óveðrið stóð hæst.
Þá er farið fram á að leigunám á tengibúnaði til þess að tengja Gönguskarðsárvirkjun við rafkerfi Sauðárkróks, ef Rarkik verður ekki búið að hefja framkvæmdir við tenginguna áður en fresturinn rennur út.
Þau fjögur atriði sem nefnd eru:
- Tenging Gönguskarðsárvirkjunar við rafmagnskerfi Sauðárkróks.
- Tetrasendir á láglendi í Skagfirði.
- Varaaflstöðvar aftur á Sauðárkrók
- Tryggara aðgengi að eldsneyti í rafmagnsleysi.
Óskað er eftir að svör berist frá ríkisstjórninni fyrir klukkan 16 á föstudaginn.