„Fara einni stundu fyr á fætur“

12.01.2019 - 07:13
Mynd úr safni. - Mynd:  / 
Enn er risin umræða um klukku og sólargang á Íslandi og er almenningur hvattur til að leggja sitt í púkkið um þrjá kosti sem stillt er upp í greinargerð forsætisráðuneytisins sem kynnt var í vikunni. Undanfarna áratugi hefur oft verið rætt um að breyta klukkunni lengi var talað um að taka upp sumartíma og flýta klukkunni enn á sumrin.  Síðustu ár hefur meira borið á umræðu um hvort seinka eigi klukkunni því hollara væri að vakna nær því er birtir.

Þrír kostir kynntir

Fyrsti kosturinn sem nú er kynntur A, er óbreytt staða, klukkan áfram á undan miðað við hnattstöðu en fólk hvatt til að fara fyrr í háttinn. Annar kosturinn B, er að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund til samræmis við hnattstöðu og hádegi því nær því þegar sól er hæst á lofti og þriðji kosturinn, C, að halda klukkunni óbreyttri en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir seinki sinni starfsemi. Það er að breyta upptaktinum á morgnana en seinka klukkunni ekki formlega.

Sýnist sitt hverjum

Mörg hundruð hafa meldað sína afstöðu í samráðsgátt stjórnvalda og sýnist sitt hverjum eins og í fyrri umræðum um breytingar á klukkunni. Þó virðist nú sem mjög margir séu á því að velja miðkostinn það er að seinka klukkunni um klukkutíma og telja menn að þá væri hún nær því sem eðlilegt telst. Aðrir segja að í myrkri og skammdegi skipti ekki öllu hvað klukkan segir. 

Hálf öld síðan hætt var að hringla með klukkuna

Fyrir fimmtíu árum, 1968, tóku gildi lög sem kváðu á um að Greenwich-tími skyldi vera staðaltími á Íslandi og hefur hann síðan gilt árið um kring. Þegar klukkan var fest við hann var það á sumartíma það er klukkunni var flýtt á  vorin og seinkað fyrir fyrsta sunnudag vetrar. 

Klukkan var ekki það sama í Reykjavík og á Akureyri

En í  byrjun tuttugustu aldar var ekki samræmdur tími alls staðar á Íslandi. Í byrjun aldarinnar, 1907 voru sett lög um að alls staðar á landinu skyldu klukkur fylgja tíma sem væri einni klukkustund á eftir Greenwich. Fyrir þann tíma voru klukkur stilltar á hverjum stað eftir meðalsóltíma. Í umfjöllun í Almanaki Háskólans kemur fram að þá voru Akureyringar um stundarfjórðungi á undan Reykvíkingum og Norðfirðingar voru rúmum hálftíma eða 33 mínútum á undan Reykjavíkurklukkunni. En fyrir hundrað og tíu árum var sem sagt ákveðið að fylgja tíma sem væri einni stundu á eftir miðtíma Greenwich og sól í hádegisstað því um hálf eitt í Reykjavík, Austfirðingarnir ættu samkvæmt því að hafa verið nær því að hafa sól hæst á lofti klukkan tólf.

Mörg hundruð tekið afstöðu

Tíu árum síðar var Ráðuneyti Íslands heimilað að færa klukkuna fram um allt að einn og hálfan tíma frá staðaltímanum og var það gert nokkrum sinnum og alltaf flýtt um klukkutíma og klukku svo seinkað á haustin. Síðast var það gert fyrir fimmtíu árum eins og áður sagði. Einn þeirra sem skilað hefur umsögn í samráðsgáttina um hugmyndirnar sem nú eru uppi minnist þess enn hve breytingar vor og haust höfðu slæm áhrif á hann sem ungling og þá sérstaklega þegar klukkan var færð til á haustin þegar myrkrið skall á klukkutíma fyrr en venjulega og vetrarkvöldin lengdust. Sá umsegjandi er á því að best sé að hafa hlutina bara eins og þeir eru. 

Lengi vangaveltur um klukku og sólargang

Það er óvíst hvað um verður, forsætisráðherra segist jú liggja undir feldi; umsagnarfrestur er fram undir jafndægur, til tíunda mars, og þá verður dag tekið að lengja. Kannski er það, hve mikið er rætt um vangaveltur um klukkubreytingar, greinilegt merki um að skammdegið liggi þungt á okkur, ekki síst í snjóleysinu sunnanlands en víst er að umræður um tímamælingar og dagatal eru ekki nýjar af nálinni og fyrir rúmum hundrað árum voru menn að velta fyrir sér næstum nákvæmlega sömu atriðum, birtunýtingu, svefnvenjum og háttatíma eins og nú. 

Aldargömul skrif

Í Eimreiðinni árið 1912 fjallar höfundur, sem merktur er stöfunum V.G -  ritstjórinn Valtýr Guðmundsson væntanlega þar á ferð - um Daginn og árið og þá óánægju sem bólað hafi á með tímatalið og ýmsar tillögur um breytingar á því. 

Í ýmsum af hinum stærri menningarlöndum hefir á síðustu árum bólað talsvert á óánægju með það tímatal, sem vér nú höfum, og ýmsar tillögur komið fram um breyting á því. Út á tímatal dagsins hafa menn það að setja, að það sé lítt í samræmi við sólaruppkomu og sólarlag, svo að vinnutíminn komi ekki sem heppilegast niður á sumrin í hinum norðlægari löndum Norðurálfunnar. Úr þessu vilja menn bæta með því, að flýta öllum klukkum um eina klukkustund á sumrin, en seinka þeim aftur um eina stund á vetrum. Sú tillaga hefir komið fram á Englandi, og er þar allmikið kapp lagt á, að koma þessari breytingu á, af því þá fengist meira samræmi við sólarganginn, og menn nytu betur sólarljóssins og dagsbirtunnar. Sumum finst reyndar, að slíks ætti ekki að þurfa með, því ekki þyrfti annað en að fara einni stund fyr að hátta og einni stund fyr á fætur. En reynslan sýnir, að menn eru nú orðnir svo vanir að haga sér eftir klukkunni í þessu efni, að örvænt þykir um, að menn hverfi frá gömlum vana, nema klukkunni sé breytt. 

Festa hátíðis- , viku- og mánaðardaga

Greinarhöfundur heldur svo áfram og rekur nokkuð róttækar hugmyndir um að jafna lengd mánaða, setja hátíðisdaga alltaf á sömu viku og mánaðardaga á hverju ári, páskadag alltaf 8. apríl og hvítasunnudag 1. júní og með reyndar nokkrum kúnstum og skiptingu ársins í mánuði og innskotsvikur yrði tryggt að jóladagur yrði alltaf sunnudagur í síðustu viku ársins. Ekki víst að allir tækju undir með höfundi um hve haganlegar þær breytingar yrðu og ekki ósennilegt að orð hans í lokin um að þeirra verði nokkuð að bíða enn hafi orðið að áhrínsorðum. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi