Fannst látinn í klefa á Litla-Hrauni

22.08.2019 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Maður fannst látinn við opnun klefa á Litla-Hrauni í morgun. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að dánarorsök sé óstaðfest að svo stöddu en ekkert bendi til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Andlát á Litla-Hrauni er ávallt tilkynnt til lögreglu. Málið er nú í rannsókn lögreglunnar hjá Suðurlandi, segir Páll. Búið er að hafa samband við aðstandendur hins látna.

Páll segir að starfsfólk virðist hafa brugðist rétt við sorglegum atburði. Þau vinni eftir viðbragðsáætlunum sem meðal annars feli í sér að rætt sé við alla skjólstæðinga og starfsmenn sem að málinu koma. Þau passi upp á hvert annað. Hann segir að ef komi í ljós að það þurfi að skoða eitthvað í verklagi í kjölfarið, verði það tekið til greina. Mbl.is greindi fyrst frá.

Fangaverðir læsa á kvöldin og bjóða góða nótt, segir Páll. Fangarnir fái svo frið á nóttunni, nema ástæða sé til að óttast um velferð þeirra. Afplánunarfangar geti ávallt látið vita af sér með kallkerfi. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi