Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fannst hann hættur að gera gagn

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
„Mér finnst það bara eðlileg viðbrögð forystumanns að axla ábyrgð á svona tíðindum eins og við fengum í kosningunum,“ segir Óttarr Proppé, fráfarandi formaður Bjartrar framtíðar, um ákvörðun sína að hætta sem formaður eftir að flokkurinn þurrkaðist út af þingi í kosningum á laugardag. Hann segist hafa upplifað það fyrir kosningar að hann væri hættur að gera gagn.

Óttarr ræddi afsögn sína í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann sagði að niðurstöður kosninga hefðu verið mjög léleg úrslit fyrir Bjarta framtíð. „Þegar maður hættir að gera gagn eins og ég upplifði þarna fyrir kosningarnar þá á maður að hætta að þvælast fyrir og leyfa öðrum að spreyta sig.“

Óttarr sagðist ekki endilega kenna sjálfum sér um hvernig fór en kvaðst verða að axla ábyrgð á því. Hann sagði að þeir sem væru í forystu ættu að bera ábyrgð á bæði gengi flokka og ákvörðunum sem þeir tækju. Óttarr sagðist fljótt hafa orðið þess áskynja að margir væru óánægðir með ríkisstjórnarþátttöku Bjartrar framtíðar í upphafi. Hann sagði að það hefðu ekki verið mistök að slíta stjórninni þó illa hefði farið í kosningunum. Þar hefði flokkurinn staðið með gildum sínum.

Ekki voru aðrar leiðir færar eftir þann trúnaðarbrest sem varð milli flokka í uppreistar æru-málinu, sagði Óttarr. „Eftir því sem ég hef skoðað þetta betur þá er ég alveg fullvissaður um að það hafi ekki verið í spilunum. Maður hefur séð það á þeirri sterku afneitun hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins á því að eitthvað hafi verið að, að það hafi verið einhver leyndarhyggja í málunum. Sem sýnir okkur að þetta hefði sprungið upp hvernig sem fór hvort eð er.“

Óttarr sagði að líklega hefði bæði bitnað á Bjartri framtíð að taka þátt í stjórnarmyndun fyrir ári síðan og slíta stjórnarsamstarfinu í haust.

Óttarr sagðist hafa trú á flokkinn og málefni hans. Nú byði flokksins það verkefni að endurvinna traust og stuðning almennings.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV