Fann listamannsnafnið í Fimbulfambi

Mynd: MIMRA / MIMRA

Fann listamannsnafnið í Fimbulfambi

08.01.2020 - 13:20

Höfundar

Söngkonan María Magnúsdóttir, MIMRA, kom við í Popplandi og sagði frá nýju lagi, sem hún samdi fyrir ári en ákvað að gefa út núna í janúar, og nýju hlutverki sem hún öðlaðist nýverið þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn.

Lagið heitir Right Where You Belong og er í grunninn skilaboð frá ástvini til þess sem glímir við andlega erfiðleika, kvíða eða þunglyndi, „pepp sem maður segir vini sínum,“ eins og hún orðar það sjálf.  Textinn er þannig nokkurs konar janúarsálumessa, og því vildi María bíða með að gefa það út þar til nú. 

María hefur unnið lengi við tónlist sem söngkona, tónskáld, söngkennari og framleiðandi. Fyrsta platan hennar, Not Your Housewife, kom út fyrir áratug. Hún gaf út plötuna Sinking Island fyrir tveimur árum og hlaut hún góðar viðtökur. Undanfarin misseri hefur María gefið út lög í samvinnu við ýmsa pródúsenta og listamenn. Síðast sendi hún frá sér lagið Vindurinn og þar fékk hún Stefán Örn Gunnlaugsson til liðs við sig.

Aðspurð segist María hafa fundið listamannsnafnið MIMRA í íslenska borðspilinu Fimbulfambi. Orðið er raunar sögn, að mimra,  og merkir að vera á iði, lyfta fótum á víxl, vita ekki í hvorn fótinn eigi að stíga. María segist hafa tengt við þetta enda hefur hún farið um víðan völl í tónlistarstíl. MIMRA varð þannig hugarfóstur Maríu, sem hún segir að sé „orkestru folk-popp“.

María hefur nú tekið til við nýtt verkefni. Hún eignaðist dóttur í nóvember í fyrra og henni finnst spennandi að læra á þetta nýja verkefni og púsla því saman með tónlistarferlinum. 

Lag Maríu, Right Where You Belong, nýtur sín í minimalískum elektró-popp-hljóðheimi. Það var hljóðhannað af tónlistarkonunni og pródúsentinum Zöe Ruth Erwin sem er líklega þekktust fyrir lög sín í kvikmyndinni Lof mér að falla. Arnar Guðjónsson hjá Aeronaut Studios hljóðblandaði og Addi 800 sá um hljómjöfnun. Right Where You Belong er á öllum helstu streymisveitum.

Viðtalið og lagið má heyra í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ekkert að gera í norskum smábæ nema syngja í gospelkór

Tónlist

Á lista yfir bestu tónleika ársins í Danmörku

Popptónlist

Spotify birtir mest streymdu tónlistina

Menningarefni

Tónlist Hildar breytti Phoenix í Jókerinn