Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fangaflótti í Indónesíu eftir óeirðir

11.05.2019 - 06:41
Mynd með færslu
Indónesískir lögreglumenn. Mynd:
Yfir hundrað fangar sluppu úr fangelsi á eyjunni Súmötru í Indónesíu í nótt að sögn lögreglu þar í landi. Fangarnir sluppu eftir óeirðir og eldsvoða í fangelsinu, en myndefni í indónesísku sjónvarpi sýndi fangelsið í ljósum logum að sögn AFP fréttastofunnar.

Yfirvöld gerðu dauðaleit að föngunum og náðu 115 þeirra fyrir hádegi að staðartíma. Tugir strokufanga eru enn ófundnir. AFP hefur eftir lögreglustjóranum Widodo Eko Prihastopo að lögreglan njóti aðstoðar hersins og íbúa í nágrenninu við leitina. 

Að sögn AFP hófust óeirðirnar í fangelsinu eftir að fangaverðir börðu fanga sem náðust við neyslu amfetamíns. Þrír fangar voru með stungusár og lögreglumaður varð fyrir skoti í óeirðunum að sögn heilbrigðisyfirvalda. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV