Fána stolið en skilað aftur með mjólkurbíl

03.10.2017 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Valgeirsson - RÚV
Stórum, amerískum fána var stolið af flaggstöng í miðbæ Siglufjarðar aðfaranótt sunnudags. Fáninn skilaði sér þó með mjólkurbíl tæpum sólarhring seinna, en eigendur fánans, feðgarnir Valgeir Sigurðsson og Hilmar Valgeirsson, vita enn ekki hver var þar að verki.

Nafnlaus sending með mjólkurbíl

Mjólkurbílstjóri MS kom með fánann á bensínstöð Olís á Siglufirði í gær. Þjófurinn hafði þá séð sig um hönd, komið fánanum í til mjólkurbílstjórans á Akureyri og beðið hann um að skila honum til Siglufjarðar. 

Guðný Sölvadóttir, verslunarstjóri Olís á Siglufirði, segir þýfið hafa verið í góðu ásigkomulagi þegar hún tók við því. 

„Þetta er alveg heljarinnar fáni,” segir Guðný. Og eru það orð að sönnu því hann er um 20 fermetrar að stærð. „Hann var upprúllaður og vel innpakkaður þegar ég tók við honum og kom honum í réttar hendur. Þeir voru voðalega hamingjusamir að fá hann aftur eftir þetta ferðalag.”

„Alvarlegur glæpur að stela fána”

Hilmar segir fánann hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir sig, en hann á ameríska móður. Hann tók eftir því að fáninn var horfinn á sunnudagsmorgun, en hann hafði farið út úr bænum. Faðir hans keypti fánann í Flórida fyrir 15 árum þegar þeir feðgar voru að heimsækja móður Hilmars. 

„Þetta er mjög vandaður fáni, saumaður saman úr mörgum tegundum af efnum. Hann mundi kosta að minnsta kosti 250.000 krónur,” segir hann. „Það er alvarlegur glæpur að stela fána og miðað við andrúmsloftið í Bandaríkjunum í dag gæti það valdið miklum skaða ef hann hefði verið misnotaður á einhvern hátt.” Hann veit ekki hver var að verki, en Hilmar tilkynnti þjófnaðinn til lögreglu á sunnudag, en lét vita í gær að honum hafði verið skilað. 
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi