Falskar fréttir um fæðingarsprengju á Íslandi

epa05384306 Aron Gunnarsson (C) of Iceland and teammates celebrate after the final whistle of the UEFA EURO 2016 group F preliminary round match between Iceland and Austria at Stade de France in Saint-Denis, France, 22 June 2016. Iceland won 2-1.
 Mynd: EPA

Falskar fréttir um fæðingarsprengju á Íslandi

29.03.2017 - 13:56
Lítið tíst frá fæðingarlækni við Landspítalann varð til þess að tugir fjölmiðla um allan heim hafa á síðustu dögum flutt falskar fréttir af því að fæðingarsprenging hafi orðið á Íslandi um síðustu helgi, sléttum 9 mánuðum eftir að Íslendingar lögðu Englendinga að velli í 8-liða úrslitum EM í fótbolta.

Á mánudag setti Ásgeir Pétur Þorvaldsson svæfinga- og gjörgæslulæknir inn færslu á Twitter um að met hefði verið slegið í fjölda mænudeyfinga á Kvennadeild Landspítalans. Birt var frétt um tístið á visir.is. Ekkert er þar fullyrt um að fjöldi fæðinga hafi verið meiri en gengur og gerist.

Úr þessari fjöður urðu hins vegar til ótal hænur. Út um allan heim.

Breska pressan fékk veður af fréttinni, blés hana út og nú var fréttin sú að hér hefði orðið alger fæðingarsprengja um síðustu helgi. Litlu síðar kokgleypti spænska pressan beituna og öll helstu íþróttadagblöð Spánar hafa slegið fréttinni upp. Eitt þeirra segir Íslendinga hafa fengið „fótboltafullnægingu“ í fyrrasumar.

Vefmiðillinn Nutiminn.is birti svo frétt í gær um að ekkert óvenjulegt hefði átt sér stað á fæðingardeildum landsins um síðustu helgi. Síðar á mánudag setti Ásgeir Pétur inn nýja færslu sem benti til þess að tístið hans hefði vakið aðeins meiri athygli en hann átti von á.

Að tístið hans yrði að frétt sem færi sem eldur í sinu um heimsbyggðina er þó nokkuð sem hann óraði ábyggilega ekki fyrir, en síðdegis í dag óskaði sjónvarpsstöð í Argentínu eftir sjónvarpsviðtali við fréttamann RÚV vegna þessa „stórmerkilega“ máls.

Meira að segja breska ríkisútvarpið, BBC, sá ástæðu til að segja frá meintri fæðingarsprengju. Á Facebook-síðu þeirra var birt myndband þar sem sjá mátti börn koma upp um heitan hver á Íslandi.

Dæmi um fréttir erlendra fjölmiðla:

The Telegraph (England)

Marca (Spánn)

Sport (Spánn)

Mundo Deportivo (Spánn)

La Vanguardia (Spánn)

as (Spánn)

Belfast Telegraph (N-Írland)

Daily Star (England)

Wichita Eagle (Bandaríkin)

Newsweek (Bandaríkin)

New Zealand Herald (Nýja Sjáland)

RT (Rússland)