Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fallþungi nánast sá sami og í fyrra

08.10.2019 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda segir að gott ástand dilka þetta haustið falli í skuggann af lágu afurðaverði. Sláturtíð stendur nú sem hæst en fallþungi er nánast sá sami og í fyrra. Búið er að slátra um helmingi dilka á yfirstandandi tíð en hátt í 580 þúsundum fjár verður slátrað á landinu þetta árið.

10 prósenta meðaltalshækkun á afurðaverði

Samkvæmt tölum frá samtökunum er fallþungi nú 16,79 kíló en var 16,8 kíló í fyrra. Þar kemur einnig fram að fitumat sé heldur lægra í ár. Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri samtakanna segir að þrátt fyrir um 10 prósenta meðaltalshækkun á afurðaverði milli ára sé enn nokkuð langt í land. 

„Það er alla vega ánægjulegt að sjá að það er ágætur fallþungi og fé virðist koma svona vel undan sumri þó það sé misjafnt yfir landið. En auðvitað í skugga þess að við hefðum viljað sjá hærra afurðaverð," segir Snorri.

Nú talar þú um um að það sé misjafnt milli landshluta, er það eitthvað óvenjulegt eða hvað skýrir það?

„Nei það er bara, við sjáum alltaf svona breytileika á milli ára, milli landshluta. Bara svona eftir veðurfari, hvernig hérna afréttir gróa og hvernig sprettan er yfir sumarið."