Fallegt fólk að gera ljóta hluti

Mynd: Netflix / Netflix

Fallegt fólk að gera ljóta hluti

02.02.2020 - 13:00

Höfundar

Sjónvarpsþættirnir You eiga seint eftir að komast á spjöld sjónvarpssögunnar, en þeir renna ljúflega í gegn og það er erfitt að hætta að horfa eftir bara einn þátt, segir Áslaug Torfadóttir.

Áslaug Torfadóttir skrifar:

Sjónvarpsþættirnir You sem sýndir eru á Netflix segja frá bóksalanum Joe Goldberg sem virðist við fyrstu sýn vera ósköp venjulegur intróvert á fertugsaldri sem líður betur innan um bækur en fólk. Það er þangað til að hann kynnist draumakonunni, Beck. Þá kemur í ljós að Joe er líka siðblindur eltihrellir sem svífst einskis til þess að komast yfir þær konur sem vekja áhuga hans. You vöktu mikla athygli þegar fyrsta þáttaröð kom út árið 2018 og kviknuðu athyglisverðar umræður meðal gagnrýnenda og aðdáenda um nálgun þeirra á persónuna Joe. En sama hvað fólki fannst um það þá gat enginn neitað því að You er ávanabindandi sjónvarp og í lok síðasta árs leit önnur þáttaröðin dagsins ljós.

Í fyrstu þáttaröð býr Joe í New York þar sem hann vinnur í gamalli bókabúð og eyðir frítíma sínum í að gera upp fornbækur og lána Paco, nágrannadreng sem býr við erfiðar heimilisaðstæður, bækur sem hann heldur að hann hafi gaman af. Beck er ritlistarnemi sem dreymir um að verða rithöfundur en er ekki viss um að hún hafi hæfileikana til þess. Vinahópur hennar samanstendur af auðugum Manhattan-týpum og akademískum fræðimönnum sem finnst mikið til eigin gáfnafars koma. Fyrir Joe er Beck fullkomin og þar sem þættirnir eru út frá hans sjónarhorni kemur hún áhorfendum þannig fyrir sjónir fyrst. En fljótlega fer að koma móða á glansmyndina og í ljós kemur að Beck er ekki fullkomin, hún er bara mannleg. Joe á erfitt með að horfast í augu við það að draumastúlkan hans uppfylli ekki allar hans kröfur, kennir öllum öðrum en henni um og grípur til æ örþrifaríkari ráða til þess að reyna að „laga” hana. Hlutirnir eru fljótir að fara úr böndunum og í lok fyrstu seríu neyðist Joe til þess að flytja búferlum. Önnur sería hefst þar sem hann er kominn til Los Angeles þar sem sólin skín og allir stunda hugleiðslu og drekka græna safa. Joe passar ekki alveg jafn vel inn þarna og í New York en er engu að síður fljótur að finna sína hillu og fer að sjálfsögðu að vinna í bókabúð. Dag einn rekst hann á hina töfrandi Love Quinn og þrátt fyrir að hafa lofað sér að gera ekki sömu mistökin aftur verður Joe heltekinn af henni og leikurinn hefst á ný. En Love er ekki jafn auðvelt skotmark og Beck, ekki síst vegna ofverndandi tvíburabróður hennar, Forty, sem Joe þarf að koma sér í mjúkinn hjá til þess að ná til Love. Þörf Joe fyrir að bjarga vanræktum börnum fær einnig útrás í hnellnu táningsstúlkunni Ellie sem býr fyrir neðan hann.

Þættirnir eru byggðir á samnefndum bókaflokki eftir Caroline Kepner sem hlaut lof fyrir það að veita lesendum innsýn inní hugarheim truflaðs manns en á sama tíma gera hann nógu mannlegan til þess að lesandinn stæði sig stundum að því að finna til samúðar með Joe. Þættirnir vinna áfram með þá hugmynd en ekki eru allir sammála um að það sé nógu skýrt allan tímann að við eigum ekki að vera á bandi Joe. Aðstandendur hafa lýst því yfir í viðtölum að þeirra stefna sé sú að Joe sé hreint ógeð, rándýr sem að nýtir sér meðfædda hæfileika til þess að stjórna öllum í kringum sig og að við eigum svo sannarlega ekki að halda með honum. En það er vandamálið með síkópatana, þeir geta verið svo ansi sjarmerandi. Ekki hjálpar leikaravalið til en það er leikarinn Penn Badgely sem leikur Joe. Badgely er þekktastur fyrir leik sinn í unglingaþáttunum Gossip Girl þar sem hann lék ljúflinginn Dan Humphrey, þó reyndar megi alveg deila um siðferðiskennd hans líka. Badgely nýtir sér ímynd sína sem góði gæinn í hlutverki Joe en bætir við hættulegri undirtón og sú blanda hefur haft óvænt áhrif á aðdáendur hans sem margir hverjir halda ekki vatni yfir kynferðislegu aðdráttarafli Joe. Badgely hefur verið óþreytandi bæði í viðtölum og á Twitter við að minna á að Joe sé skrímsli en talað fyrir daufum eyrum. Þetta hefur leitt til mikillar umræðu um það hvort að þarna sé verið að gefa ofbeldismönnum rödd og mála þá í of jákvæðu ljósi. Þessi lína er vandmeðfarin og sérstaklega er seinni þáttaröðin sek um að gera Joe að nokkurs konar Dexter-týpu sem lítur á sjálfan sig sem hefnanda þeirra sem minna mega sín gegn öðrum ofbeldismönnum.

Aðrir leikarar standa sig einnig vel og þá sérstaklega konurnar sem leika viðföng þráhyggju Joe. Elizabeth Lail leikur Beck og er fljót að finna dýptina og óöryggið sem býr í persónunni og sýnir okkur að hún er bara venjuleg, breysk manneskja, löngu áður en Joe fattar það. Victoria Pedretti sýndi það í hlutverki sínu í The Haunting of Hill House að hún hefur gríðarlega sympatíska nærveru og í fyrstu virðist Love vera of góð til að vera sönn. Sem auðvitað er satt. Pedretti lætur skína í stálið undir mjúku yfirborði Love og byggir fallega upp mynd af brotinni manneskju sem hefur reynt ýmislegt. Einnig þarf að nefna Shay Mitchell sem stelur senunni í fyrstu þáttaröð sem vinkona Beck, Peach, Jenna Ortega sem tekst að gera erkitýpuna kláru, hortugu unglingsstúlkuna meira en þolanlega og James Scully sem er stórkostlegur sem forréttindapeśinn Forty.

You eiga seint eftir að komast á spjöld sjónvarpssögunnar en það er alltaf gaman að fylgjast með fallegu fólki gera ljóta hluti. You renna ljúflega í gegn og það er erfitt að hætta að horfa eftir bara einn þátt. Nú er búið að tilkynna um framleiðslu þriðju þáttaraðarinnar og því ljóst að aðdáendur Joe fá skammtinn sinn af næringarsnauðu en bragðgóðu sjónvarpsefni áfram.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Sjónvarpsefni sem enginn ætti að láta framhjá sér fara

Sjónvarp

Flatur hryllingur og lítil spenna

Sjónvarp

Söguleg sápuópera sem erfitt er að slíta sig frá

Sjónvarp

Alvöru manneskja eða hreinn metnaður í jakkafötum?