Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fáir aldraðir innflytjendur með rétt á lífeyri

09.04.2018 - 20:25
Mynd: RÚV/Kastljós / RÚV/Kastljós
Barbara Jean Kristvinsson, sérfræðingur í málefnum innflytjenda hjá Reykjavíkurborg, segir að staða eldri borgara af erlendum uppruna geti verið ólík stöðu annarra jafnaldra þeirra hér á landi. Starfa verði í 40 ár hérlendis, á milli 16 og 67 ára aldurs, til að fá fullar lífeyrisgreiðslur. Fáir uppfylli þau skilyrði og þurfi því að sækja um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga.

Um 300 manns eru í hópi eldri borgara af erlendum uppruna í Reykjavík. 

Barbara segir ólíkt eftir því hvaðan fólk kemur hvaða réttindi það hefur til eftirlauna. „Til dæmis fólk sem hefur verið hér frekar stutt og er frá landi utan Evrópu hefur minni réttindi. Fólk frá Evrópu hefur meiri réttindi og þar er misjafnt milli landa í Evrópu hvaða rétt fólk hefur og það er erfitt að sækja um þetta. Kerfið er flókið.“

Aldraðir innflytendur sæki um fjárhagsaðstoð og framfærslustyrk en minna um húsaleigubætur, akstursþjónustu og heimaþjónustu. „Kannski þeir viti ekki um þetta,“ segir Barbara í viðtali við Birtu Björnsdóttur í Kastljósi í kvöld. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV