Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fagrýnihópur metur útlit hótels í Kvosinni

04.07.2015 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandshótel - RÚV
Fagrýnihópur arkitekta mun meta útlit nýs hótels sem áætlað er að rísi í Kvosinni við Lækjargötu. Vinningstillaga um hönnun hótelsins var kynnt fyrir helgi. Útlit hótelsins hefur fengið misjöfn viðbrögð.

 

„Umhverfis- og skipulagsráð mun fjalla um tillöguna, hvort hún sé frábrugðin deiliskipulagi og þá með hvaða hætti,“ segir Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs hjá Reykjavíkurborg.

Hún segir byggingarfulltrúa borgarinnar taka á endanum ákvörðun um bygginguna. „Umhverfis- og skipulags ráð fjallar um útlit á öllum byggingum í miðborginni en í raun og veru er það byggingarfulltrúi sem samþykkir bygginguna.“ 

Ólöf segir sérstakan faghóp starfa með byggingarfulltrúa sem meti útlit bygginga í miðborginni. „Arkitektafélagið skipar hópinn að ósk borgarinnar en hópurinn leggur mat á fagurfræði bygginga og er álitsgjafi fyrir byggingarfulltrúa og umhverfis-og skipulagsráð. Í hópinn var skipað fyrir rúmu ári enda mikilvægt, vegna áforma um þéttingu byggðar í miðbænum, að fara vel yfir þessi mál. Betur sjá augu en auga.“

Mikið svakalega virkar þetta ljótt.

Posted by Egill Helgason on 3. júlí 2015

Egill Helgason er á meðal þeirra sem gagnrýna útlit nýs hótels. Miklar umræður skapast á Facebook-síðu hans en þar segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, tillöguna afleita.

Illugi Jökulsson gagnrýnir útlit hótelsins líka og talar til Dags B. Eggertsson borgarstjóra. „Nú veit ég að borgarstjórn ræður ekki einstökum húsbyggingum. En ég get ekki og mun ekki styðja borgarstjórn sem finnur ekki leið til að stöðva byggingu þessa ömurlega ljóta skrímslis í miðborg Reykjavíkur.“

Í tilkynningu frá Íslandshóteli kemur fram að efnt hafi verið til hönnunarsamkeppni á vegum Íslandshótela og Minjaverndar fyrr á þessu ári. Áætlað sé að hótelið rísi að Lækjargötu 12 í Reykjavík árið 2018. Tillaga teiknistofunnar Gláma-Kím varð fyrir valinu.

DV ræðir við Áslaugu Maríu Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og nefndarmann í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Hún segir erfitt að meta tillöguna út frá þessari einu mynd. „„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að þarna á líklega eftir að vinna miklu, miklu meira með hlutina.“

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV