Fagráð harmar stöðuna á Reykjalundi

21.10.2019 - 09:50
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjalundur
Fagráð Reykjalundar hefur miklar áhyggjur af teymisvinnu í þeirri stöðu sem komin er upp á stofnuninni, að því er segir í tilkynningu sem ráðið sendi fjölmiðlum. Þar segir að í framkvæmdastjórn vanti sérfræðiþekkingu og reynslu af þverfaglegri endurhæfingu sem sé hryggjarstykki starfseminnar.

„Uppsagnir lækna eru mikið reiðarslag þar sem stofnunin er að glata mikilli sérfræðiþekkingu sem við sjáum ekki fram á að hægt sé að sækja annað þar sem fáir endurhæfingarlæknar eru starfandi á Íslandi,“ segir í tilkynningunni. Þá lýsir fagráðið einnig yfir áhyggjum af því að félagasamtök geti haft óskorað vald yfir rekstri stofnunarinnar og ógnað faglegri starfsemi hennar.

Mikill órói hefur verið á Reykjalundi í þessum mánuði eftir að forstjóra var sagt upp og starfslokasamningur gerður við framkvæmdastjóra lækninga. Sá hafði stýrt endurhæfingu á Reykjalundi í áratugi. 

Í tilkynningunni mótmælir fagráðið því að óánægja einskorðist við deilur lækna við stjórnendur. Fagráðið taki undir athugasemdir Læknaráðs Reykjalundar og Félags endurhæfingarlækna varðandi slæm vinnubrögð við innleiðingu nýs skipurits og óviðeigandi afskipti stjórnar SÍBS af rekstrinum. Þá lýsir fagráðið yfir áhyggjum af því að félagasamtök geti haft óskorað vald yfir rekstri stofnunarinnar og ógnað faglegri starfsemi hennar.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi