Fagnar því að ráðherra hafi hlustað á óskir Akureyringa

25.03.2020 - 23:22
Mynd:  / 
Viðbygging við flugstöðina á Akureyrarflugvelli og stækkun á flughlaði er meðal framkvæmda sem ríkisstjórnin leggur til að farið verði í strax. Bæjarstjórinn á Akureyri fagnar því að ráðherra hafi hlustað á óskir sveitarfélagsins.

Auk framkvæmda við Akureyrarflugvöll er nú stefnt að því að endurnýja malbik á Egilsstaðaflugvelli. Verja á 500-600 milljónum í verkefnin í ár. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni síðdegis í gær. Ekki var gert ráð fyrir uppbyggingu Akureyrarflugvallar í fimm ára samgönguáætlun sem kynnt var í haust og var því harðlega mótmælt fyrir norðan.

„Erum ákaflega glöð“ 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri fagnar þessum tíðindum. „Það er alveg meiri háttar að fá þessar fregnir. Og við erum ákaflega glöð að samgönguráðherra og ríkisstjórnin öll hafi litið og hlustað á óskir okkar og litið til okkar með þessum góða hætti.“

Eins og fram hefur komið hefur KEA lýst yfir vilja til að byggja við flugstöðina og leigja ríkinu húsið. Ný þykir ljóst að af þeim hugmyndum verður ekki.

Vinna við að markaðssetja flugvöllinn sem alþjóðaflugvöll hefst strax

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir að vinna við að markaðssetja flugvöllinn sem alþjóðaflugvöll geti hafist þegar í stað. 

„Mér skilst að það eigi að hefja framkvæmdir í vor, það á eftir að teikna upp flugstöðina og það á eftir að skoða hvernig er hægt að koma henni sem best fyrir þannig að ég get engu svarað um hvenær hún verður tilbúin en það er kannski ekki aðal málið fyrir okkur, það er í rauninni þessi yfirlýsing að það verði byggð flugstöð, það er eitthvað sem við getum farið með til flugfélaga og ferðaskrifstofa erlendis. Þetta er ákveðin yfirlýsing um það að hérna séum við með alþjóðaflugvöll og það eigi að nýta hann sem alþjóðaflugvöll,“ segir Arnheiður.  

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi