Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fagnar skyndifriðun hafnargarðs

12.09.2015 - 18:21
Um 1930, bátar við steinbryggjuna. Kolakraninn í baksýn.
 Mynd: ruv - Panorama blaðfilma
1928, flugvélin Súlan, flugvél Flugfélags Íslands sjósett frá steinbryggjunni að viðstöddu fjölmenni. Nordalsíshús, Verkamannaskýlið og fleira í bakgrunni.
 Mynd: © Ljósmyndasafn Reykjavíkur - ruv
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði fagnar því að Minjastofnun noti tæki sem henni eru gefin til að vernda menningaminjar. Stofnunin friðaði í skyndi hafnargarðinn sem grafinn var upp við tollhúsið í sumar.

Skyndifriðunin gildir í allt að sex vikur og innan þess tíma þarf forsætisráðherra að ákveða hvort garðurinn verður friðlýstur. Reykjavíkurborg hefur mótmælt ákvörðun Minjastofnunar formlega, þar sem hún var ekki borin undir borgina, sem hefur skipulagsvald á lóðinni. Hafnargarðurinn er mun yngri en talið var. Hann var reistur 1928 og stóð til 1939 þegar farið var að fylla í hann aftur. Minjastofnun hefur ekki viljað tjá sig um málið. Orri Vésteinsson prófessor segir að það sé athyglisvert að sjá ákvæði laganna um skyndifriðun beitt.

„Ég fagna því að minjastofnun sé að nota þau tæki sem henni eru gefin til að vernda menningarminjar.“

Björn Blöndal formaður borgarráðs furðaði sig á því í fréttum í gær hvers vegna hafnargarðurinn var friðaður í skyndi en ekki landnámsskálinn í Lækjargötu sem líka var grafinn upp í sumar. Samkvæmt lögum um fornminjar teljast öll mannvirki sem eru eldri en 100 ára sjálfkrafa til fornminja. Orri segir að stofnunin hafi heimild til að friðlýsa yngri minjar.

„Það er ekki aldurinn í sjálfu sér sem ákvarðar það hvort hlutir teljist merkilegir eða varðveislunnar virði. Heldur eiginlega hversu sjaldgæfir þeir eru og hvers konar heimildir þeir eru og oft líka með þennan hafnargarð, þetta er bara fallegt mannvirki.“

Alltaf sé hægt að finna lausnir í svona málum. Það eigi við um fornleifarnar í Lækjargötu og við Tollhúsið.

„Þarna eru í raun og veru tækifæri, myndi ég halda, fyrir framkvæmdaaðila og borgaryfirvöld til að nýta þessi stórkostlegu mannvirki í þeirri uppbyggingu sem þarna á að eiga sér stað.“