Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fagnar forsendum dóms í máli Freyju

Mynd:  / 
Forstjóri Barnaverndarstofu fagnar þeim forsendum sem Hæstiréttur byggir dóms sinn í máli Freyju Haraldsdóttur gegn stofnuninni. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að Barnaverndarstofu hefði verið óheimilt að hafna umsókn Freyju um að verða fósturforeldri áður en hún hafði farið í gegnum matsferli. Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir dóm Hæstaréttar skýran. Við mat á hæfni fósturforeldra eigi hagsmunir barns að vera í fyrirrúmi.

„Barnaverndarstofa er í sjálfu sér ekkert ósátt við þær forsendur sem fram koma í dómi Hæstaréttar,“ segir Heiða. 

Barnaverndarstofa hafi verið ósátt við þær forsendur sem Landsréttur hafi gefið sér þegar hann dæmdi Freyju í vil. 

„Að það varðaði ekki hagsmuni barns þegar leggja ætti mat á hæfni einstaklinga sem vildu gerast fósturforeldrar. Hæstaréttur féllst á áfrýjunarleyfið á þeim forsendum að málið varðaði grundvallarhagsmuni barna og staðfestir svo í rauninni sinni niðurstöðu að þegar tekin er afstaða til hæfni þeirra sem vilja gerast fósturforeldrar þá sé nauðsynlegt að hafa hagsmuni fósturbarna til hliðsjónar og í forgrunni við það mat. Barnaverndarstofa fagnar því mjög að fá þannig afgerandi niðurstöðu Hæstaréttar,“ segir Heiða Björg. 

Hún segir að dómurinn sé fordæmisgefandi varðandi hvaða ferli eigi að fara fram þegar Barnaverndarstofa metur hæfni þeirra sem vilja taka að sér fósturbörn. Reglugerðin sé ekki nægilega skýr varðandi það hvenær Barnaverndarstofa megi meta grunnhæfnisskilyrði.

 

Almennar kröfur til fósturforeldra, skv. reglugerðinni:

Fósturforeldrar skulu vera í stakk búnir til þess að veita barni trygga umönnun og öryggi og til að mæta þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfa að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað getur að jákvæðum þroskamöguleikum barns.

 

Þarf að breyta reglugerðinni?

Heiða segir að lagst verði yfir það mál með ráðuneytinu.

Aðeins þeir sem uppfylli skilyrði sæki námskeið

„En það er líka mikilvægt að þegar mál eru augljós að einstaklingur uppfyllir ekki grunnskilyrði þess að taka börn í fóstur að það þurfi ekki að sækja langt og strangt námskeið áður en það er lagt mat á hæfni einstaklinga. Þannig að mínu viti finnst mér vel koma til álita að reglugerðinni verði breytt þannig að þeir sem uppfylli almennu skilyrðin sækji námskeið en ekki aðrir,“ segir Heiða Björg.