Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Faggildingarvottorð ekki fullgild innan EES

15.07.2019 - 16:47
Innlent · Atvinnuvegaráðuneyti · EES · EFTA · ESA
Mynd með færslu
 Mynd: Eftirlitsstofnun EFTA - RÚV
Faggildingarvottorð, gefin út hér á landi, teljast ekki jafngild sams konar vottorðum frá öðrum ríkjum EES og njóta ekki endilega virðingar á Evrópska efnahagssvæðinu eins og staðan er nú. Þeir sem hafa fengið faggildingarvottorð hér á landi, og vilja veita þjónustu í öðru EES-ríki, geta því ekki reitt sig á að vottorðin séu fullgild þar.

Þetta kemur fram í svari Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við fyrirspurnum fréttastofu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur borist formlegt áminningarbréf frá stofnuninni.

Þar segir bæta þurfi faggildingarkerfið hér á landi. Faggildingarsvið Hugverkastofu, sem annast faggildingarmál hérlendis, hafi ekki verið sett á fót með tilskildum hætti og starfi ekki samkvæmt reglum, svo sem um að jafningjamat þurfi að fara fram, segir í bréfinu. 

Geti ekki reitt sig á vottorðin

Það verði til þess að faggildingarvottorðin teljast ekki jafngild öðrum samskonar vottorðum annarra ríkja EES, segir í svari ESA. Samræmismatsaðilar, svo sem skoðunar- eða prófunarstofur, sem hafa fengið vottorð hér á landi og vilja veita þjónustu í öðru ríki innan EES, geti því ekki reitt sig á að niðurstöður þeirra um að vara eða þjónusta standist ákveðnar kröfur, sé viðurkennd í öðrum EES-ríkjum, segir í svarinu.

Auk þess hafi faggildingarsviðið hér á landi ekki nægilegt fjármagn eða starfsfólk til að sinna skyldum sínum með tilskildum hætti. Sjálfstæði og hlutleysi þeirra er stefnt í hættu, segir í bréfinu. 

Málið í ferli

Samkvæmt svörum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er málið er nú til skoðunar hjá ráðuneytinu, en það hefur tvo mánuði til að svara. 

Gunnar Hörður Garðarsson upplýsingafulltrúi hjá Eftirlitsstofnun EFTA, segir að næsta skref sé að Eftirlitsstofnunin sendi frá sér rökstutt álit vegna málsins, teljist svar stjórnvalda ekki fullnægjandi og málið ekki leyst. Þannig sé ferlinu almennt háttað. 

Séu ekki gerðar tilskildar úrbætur á því stigi, eða svari yfirvöld ekki álitinu, fari málið fyrir EFTA-dómstólinn til úrlausnar. Hann hefur lokaorðið, segir Gunnar.

Eftirlitsstofnunin hóf að skoða málið eftir að kvörtun barst. Stofnunin getur ekki upplýst hvaðan hún barst, segir í svari ESA.  

Faggildingarvottorð lúti að hæfni samræmismatsaðila

Á vefsíðu Einkaleyfastofu segir að faggilding sé formleg viðurkenning stjórnvalda á því að einhver sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni við samræmismat, svo sem að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi. 

Ákveði faggildingastofnanir í EES-ríkjunum að samræmismatsaðili sé hæfur til að annast sérstakt samræmismat, gefur faggildingarstofnunin út sérstakt vottorð þess efnis, segir í svari ESA. Með samræmismati sé átt við hvort sérstakar kröfur í tengslum við vöru, vinnslu, þjónustu, kerfi, einstaklinga eða stofnun séu uppfylltar.

Faggildingarsvið býður upp á faggildingu vegna prófunar og kvörðunar, skoðunar af ýmsu tagi og vottunar á gæða- og umhverfisstjórnunarkerfum, vöru og hæfni starfsfólks. 

Katrín Ásmundsdóttir
dagskrárgerðarmaður