Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Færri ferðamenn gista í Reykjavík

27.04.2010 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Helmingi færri gista á hótelum í Reykjavík nú en á sama tíma í fyrra. Hildur Ómarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Icelandair hótela, er þó bjartsýn á framhaldið ef það dregur úr eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Margir ferðamenn sem ætluðu að heimsækja landið í apríl hættu við vegna erfiðleika í flugsamgöngum í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli. Þetta hefur haft veruleg áhrif á hótelin. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er nýtingin á hótelherbergjum í Reykjavík helmingi minni en á sama tíma í fyrra, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir metaðsókn. Þetta er þó ekki jafn slæmt alls staðar. Hildur segir að búið hafi verið að gera ráð fyrir um 70% nýtingu á Hilton og Icelandair Hótel Loftleiðum í aprílmánuði. Nýtingin virðist hinsvegar ætla að fara niður um 10%.

Hildur segir að ekki hafi borist mikið af afbókunum fyrir sumarið ennþá umfram það sem eðlilegt geti talist, en mikið sé jafnan afbókað á þessum árstíma. Hún er bjartsýn á framhaldið ef eldgosið fer að minnka. Hildur segir fyrirtækið vonast til að þess að eldgosinu fari að linna svo hægt verði að fylgja því eftir með jákvæðum hætti. Gríðarleg sóknarfæri séu í allri umfjölluninni um eldgosið út um allan heim.

Aðrir hóteleigendur sem fréttastofa hefur rætt við hafa svipaða sögu að segja. Nýtingin hjá sumum þeirra hefur minnkað verulega en menn eru þó bjartsýnir á sumarið ef eldgosinu fer að linna.