Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Færa vopnamálin til utanríkisráðuneytis

05.03.2018 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson/RÚV - RÚV
Utanríkisráðherra segir stefnt að því að færa leyfisveitingar vegna vopnaflutninga frá samgönguráðuneyti til utanríkisráðuneytis. Hann segir grundvallaratriði að alþjóðalög séu virt, en ekkert bendi til að svo hafi ekki verið þegar Air Atlanta fékk leyfi til vopnaflutninga.

Fjallað var um vopnaflutninga íslenska flugfélagsins Air Atlanta til Sádi-Arabíu í fréttaskýringaþættinum Kveik á dögunum. Ýmis teikn eru á lofti um það að vopn sem send eru til Sádi-Arabíu endi í raun og veru í stríðshrjáðum löndum, sem brjóta gegn stríðsrétti. Það brýtur í bága við vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að senda vopn til slíkra landa. 

Flugfélagið fékk undanþágu frá banni við vopnaflutningum frá Samgöngustofu. Samkvæmt reglugerð um slíkar undanþágur eru þær á forræði Samgöngustofu, en stofnunin heyrir undir samgönguráðuneytið. Samgönguráðherra boðaði fyrir helgi breytt verklag við úrvinnslu beiðna um vopnaflutninga, þannig að Samgöngustofu beri að leita álits ráðuneytisins í hvert sinn, og ráðuneytið vinni úr þeim í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir verkferlið til endurskoðunar. „Það er vilji ríkisstjórnarinnar að málið sé á forræði utanríkisráðuneytisins og eftir því höfum við kallað og við erum núna að vinna að því í góðri samvinnu við samgönguráðuneytið.

Mun utanríkisráðuneytið ganga úr skugga um hvar vopn sem flutt eru með íslenskum flugvélum, og með heimild íslenskra stjórnvalda, enda að lokum? „Það sem að við erum að gera núna er að breyta verkferlum þannig að það sé skýrt að við förum að alþjóðalögum og það sé alveg skýrt að það sé unnið eins vel og mögulegt er, og á meðan við erum að því þá er ekki hægt að útlista sig nákvæmlega um hver niðurstaðan í þeirri vinnu er,“ segir Guðlaugur Þór. 

Horft verði til stöðu mannréttinda í móttökulandinu þegar slík leyfi eru veitt. „Við höfum gagnrýnt Sádi-Arabíu harðlega, fyrir mannréttindabrot, og þegar það er verið að vísa til þess að við höfum verið að tala digurbarkalega á erlendum vettvangi, þá er það einfaldlega það að við erum að gagnrýna mannréttindabrot, við erum að tala fyrir mannréttindum, það hefur eftir því verið tekið. Og það er eitt af þessu sem að við lítum til þegar við erum að skoða þessar verklagsreglur og fara yfir þessi mál,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir að það verði að vera samræmi í því sem við segjum og því sem við gerum. Grundvallaratriðið sé að alþjóðalög séu virt. 

Aðspurður hvort ekki hefði þurft að ganga úr skugga um það að lög og reglugerðir væru í samræmi við vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar hann var fullgiltur árið 2013, segir hann auðvelt að vera vitur eftir á. Vinnan við flutning leyfisveitinganna nú, frá samgönguráðuneyti til utanríkisráðuneyti, taki til þessa.