Fær nýja nafnið ekki viðurkennt í skólanum

Mynd: RÚV núll  / RÚV núll

Fær nýja nafnið ekki viðurkennt í skólanum

15.03.2018 - 17:53

Höfundar

Nýr þáttur af Hinseginleikanum er nú aðgengilegur á vef RÚV. Að þessu sinni fjallar þátturinn um trans fólk.

Í þættinum er meðal annars rætt við Dalvin Smára Imsland, átján ára trans strák og nemenda í Menntaskólanum við Sund, sem stendur í baráttu við skólann sinn vegna þess að honum hefur verið synjað um að skrá sitt nýja nafn í kerfi skólans. Þetta veldur því meðal annars að Dalvin er alltaf lesinn upp í kennslustundum eftir sínu gamla nafni, sem eðli málsins samkvæmt er kvenmannsnafn.

Foreldrar Dalvins hafa tilkynnt málið til Menntamálaráðuneytisins en erindi þeirra hefur ekki verið tekið til meðferðar. Eftirgrennslan Hinseginleikans bendir til að aðrir framhaldsskólar hafi breytt nöfnum trans nemenda um leið og beiðni þar að lútandi kemur fram. Þar hafi ekki þurft að bíða eftir því að formleg nafnabreyting taki gildi í Þjóðskrá. 

Í þættinum er einnig rætt við foreldra Ronju Sifjar Magnúsdóttur, sex ára trans stelpu, sem öðlaðist nýtt líf þegar hún fékk frelsi til að hætta að ganga í fötum ætluðum drengjum og svara öðru nafni.

Hinseginleikinn er ný þáttasería á vef RÚV. Þættirnir verða sex talsins og fjalla um hinsegin fólk. Þættirnir eru framleiddir af RÚV núll, nýrri þjónustu RÚV fyrir ungt fólk. Hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Nýir þættir um hinsegin fólk hefja göngu sína