Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fær ekki alltaf að búa heima hjá sér

05.01.2016 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg var í gær sýknuð af kröfum fatlaðrar stúlku sem vildi að borgin gerði henni kleift að búa heima hjá sér allan ársins hring. Héraðsdómur segir meðal annars að slíkt úrræði sé ekki í boði.

Salbjörg Ósk Atladóttir er 19 ára gömul fötluð stúlka sem þarf aðstoð eins til tveggja starfsmanna allan sólarhringinn. Árið 2013 gerði Salbjörg beingreiðslusamning við Reykjavíkurborg sem gerir henni kleift að búa á heimili sínu aðra hverja viku, en hina vikuna dvelur hún í skammtímavistun. Foreldrar Salbjargar og sérfræðingar sem skoðað hafa mál hennar telja hins vegar að heilsu hennar væri betur borgið ef hún gæti alltaf búið á heimili sínu, og þyrfti ekki að flytja í hverri viku. Vildu þeir því að samningnum yrði breytt þannig að Salbjörg gæti alltaf búið heima hjá sér. Töldu þau að kostnaður borgarinnar myndi ekki aukast við það. Reykjavíkurborg neitaði því hins vegar og því höfðaði Salbjörg mál á hendur borginni í júní í fyrra þar sem hún krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði borgina af kröfum Salbjargar í gær. Í dómnum segir meðal annars að ósannað sé að þjónustan sem Salbjörg fer fram á kosti jafnmikið og sú sem hún fær í dag. Þá segir að Salbjörg hafi fengið ýtrustu þjónustu sem borgin gat veitt miðað við þær reglur sem voru í gildi. Úrræðið sem hún fór fram á hafi ekki verið í boði. Borgin hafi því farið að lögum í málinu. Óvíst er hvort Salbjörg áfrýjar dómnum.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV