Fær að gera það sem honum þykir skemmtilegt

Mynd: Youtube / https://www.youtube.co / Sigurbjartur Sturla Atlason

Fær að gera það sem honum þykir skemmtilegt

11.05.2018 - 16:40

Á dögunum sendi Sturla Atlas frá sér nýtt lag, No Tomorrow og tónlistarmyndband í leikstjórn Jóhanns Kristófers Stefánssonar. Það kveður við ögn dramatískari tón en áður hefur heyrst. Glöggir aðdáendur Sturla Atlas taka einnig eftir að Logi Pedro er einnig skráður sértaklega fyrir laginu. Áður höfðu þeir ásamt Jóhanni Krisófer eða Joey Christ allir komið fram undir merkjum Sturla Atlas. Sigurbjartur Sturla Atlason segir að eftir að Logi og Jóhann fóru að vinna að sinni eigin tónlist tvístraðist hópurinn og sanngjarnara væri að hver kæmi fram undir sínu nafni.

Sigurbjartur er ekki bara tónlistarmaður heldur er hann menntaður leikari frá Listaháskóla Íslands. Hann fer með hlutverk í annari þáttaröð af Ófærð sem sýnd verður á Rúv í haust og kvikmyndinni Lof mér að falla í leikstjórn Baldvins Z. sem frumsýnd er í september.

Um þessar mundir eru miklar framkvæmdir í 101derland stúdíói þeirra drengja. Verið er að bæta við nýju rými og skrifstofuaðstöðu þar sem sífellt fleiri listamenn bætast við í hópinn.

Sigurbjartur Sturla Atlason mætti í Núllið. Hljóðbrotið má heyra hér að ofan.