Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Faðir og bróðir árásarmanns handteknir

14.11.2015 - 23:22
epa05025586 Paris Public Prosecutor Francois Molins holds a press conference regarding the 13 november attacks in Paris, France, 14 November 2015. Reports state that Molins said 129 people were killed in the 13 November terror attacks, and 352 people were
Francois Molins, ríkissaksóknari Frakklands. Mynd: EPA
Lögregla í Frakklandi færði feðga í gæsluvarðhald í dag vegna hugsanlegra tengsla við hryðjuverkin í París í gærkvöld. Mennirnir eru faðir og bróðir eins árásarmannanna.

Feðgarnir eru tengdir Omar Ismail Mostefai, eins þeirra sem skaut tæplega níutíu til bana á tónleikastaðnum Bataclan. Maðurinn var franskur ríkisborgari.

Bróðir hans hafði sjálfur samband við lögreglu og var svo hnepptur í varðhald. AFP fréttaveitan náði tali af honum á leiðinni á lögreglustöðina. Með titrandi röddu sagði hann þetta vera algjört brjálæði. „Ég var í París í gær og sá að allt var í rugli,“ sagði hann. Hann sagðist vita að bróðir sinn væri að stunda einhverja smáglæpi en hefur lítið haft samband við hann síðustu ár. Honum datt samt ekki í hug að hann væri tengdur öfgaöflum. Hann sagðist síðast hafa vitað af honum þar sem hann fór til Alsír með fjölskyldu sinni og litlu stelpunni. „Ég hringdi í móður mína en hún virtist ekkert vita,“ sagði bróðir Mostefai.

Lögregla hefur einnig gert húsleit á heimilum vina og skyldmenna Mostefai, að sögn heimildarmanna AFP fréttaveitunnar. Heimili föður árásarmannsins er í smábænum Romilly-sur-Seine, um 130 kílómetra austur af París. Bróðirinn býr suður af París.

Mostefai var á sakaskrá vegna smáglæpa en hann hafði aldrei setið í fangelsi. Vitað var að hann var öfgasinnaður en hann hafði engar tengingar við hryðjuverkastarfsemi að sögn Francois Molins, ríkissaksóknara Frakklands.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV