
Faðir og bróðir árásarmanns handteknir
Feðgarnir eru tengdir Omar Ismail Mostefai, eins þeirra sem skaut tæplega níutíu til bana á tónleikastaðnum Bataclan. Maðurinn var franskur ríkisborgari.
Bróðir hans hafði sjálfur samband við lögreglu og var svo hnepptur í varðhald. AFP fréttaveitan náði tali af honum á leiðinni á lögreglustöðina. Með titrandi röddu sagði hann þetta vera algjört brjálæði. „Ég var í París í gær og sá að allt var í rugli,“ sagði hann. Hann sagðist vita að bróðir sinn væri að stunda einhverja smáglæpi en hefur lítið haft samband við hann síðustu ár. Honum datt samt ekki í hug að hann væri tengdur öfgaöflum. Hann sagðist síðast hafa vitað af honum þar sem hann fór til Alsír með fjölskyldu sinni og litlu stelpunni. „Ég hringdi í móður mína en hún virtist ekkert vita,“ sagði bróðir Mostefai.
Lögregla hefur einnig gert húsleit á heimilum vina og skyldmenna Mostefai, að sögn heimildarmanna AFP fréttaveitunnar. Heimili föður árásarmannsins er í smábænum Romilly-sur-Seine, um 130 kílómetra austur af París. Bróðirinn býr suður af París.
Mostefai var á sakaskrá vegna smáglæpa en hann hafði aldrei setið í fangelsi. Vitað var að hann var öfgasinnaður en hann hafði engar tengingar við hryðjuverkastarfsemi að sögn Francois Molins, ríkissaksóknara Frakklands.