Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Facebook leyfir streymi af sjálfsskaða

22.05.2017 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Facebook leyfir myndir af dýraníði á samskiptasíðunni, myndefni af misnotkun barna er ekki fjarlægt nema misnotkunin sé kynferðisleg, myndbönd af fóstureyðingum eru heimiluð svo framarlega sem á þeim sést engin nekt og beinar útsendingar af fólki að skaða sjálft sig eru ekki stöðvaðar til að auka líkurnar á að einhver komi því til hjálpar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í innanhússskjölum frá Facebook sem The Guardian hefur komið höndum yfir.

The Guardian hefur birt ítarlega úttekt á innanhússleiðbeiningum Facebook um það hvaða efni skuli eyða af síðunni og hverju ekki. Leiðbeiningarnar eru bæði yfirgripsmiklar og flóknar. Hjá Facebook starfa þúsundir við það eitt að fara yfir efni á síðunni og ákveða örlög þess og The Guardian segir að á meðal þeirra séu uppi áhyggjur af ósamræmi í leiðbeiningunum og einkennilegheitum sumra þeirra. Leiðbeiningar sem lúta að kynferðislegu efni eru sagðar þær allra ruglingslegustu.

Þessir umræðustjórar taka einungis afstöðu til efnis sem hefur verið klagað formlega af öðrum notendum en eru engu að síður að drukkna í slíkum tilkynningum. Yfirleitt hafa þeir einungis um tíu sekúndur til að annað hvort leyfa efnið eða eyða því.

Sérstök glæra um „Helfararnekt“

Leiðbeiningarnar sem The Guardian hefur í fórum sínum eru á formi þúsunda glæra og mynda sem taka á öllu frá ofbeldi, rasisma og klámi yfir í veðmálasvindl og mannát. Í þeim segir meðal annars að myndböndum af ofbeldisfullum dauðdögum sé ekki endilega alltaf eytt vegna þess að þau geti hjálpað við að auka meðvitund um geðsjúkdóma.

Myndefni af dýraníði er leyft og aðeins það allra grófasta þarf að varúðarmerkja, ofbeldishótanir eru bannaðar nema þær séu metnar ótrúverðugar og „handgerð“ listaverk sem sýna nekt og kynlíf eru leyfð en stafræn listaverk af svipuðum toga eru það ekki. Ein glæran fjallar um það sem kallað er „Helfararnekt“ og samkvæmt henni á ekki að fjarlægja myndir af nöktum fórnarlömbum Helfararinnar.

Á vef The Guardian er hægt að spreyta sig á prófi með myndum úr leiðbeiningunum til að komast að því hvort maður hafi það sem til þarf í starf umræðustjóra.