Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

FaceApp eignast myndirnar

18.07.2019 - 20:01
Mynd: Baltasar Breki / RÚV
Andlitsmyndir sem snjallsímaforritið FaceApp fær og notar til að gera fólk gamalt eru eign forritsins. Persónuverndarskilmálar FaceApp eru svipaðir og skilmálar stærstu samfélagsmiðla.

FaceApp er snjallsímaforrit sem gerir glettna tilraun til að sýna notendum hvernig þeir eiga eftir að líta út síðar á ævinni.

Það er auðvelt að sækja FaceApp og setja upp á símanum. Þegar forritið er opnað í fyrsta sinn biður það um aðgang að myndum og myndavél. Og svo má taka mynd af sér og kanna hvernig maður lítur út gamall.

Appið hefur komist í hámæli, ekki síst vegna grunsemda um að það sæki myndir og upplýsingar úr snjallsímum og visti á vefþjónum úti í heimi. Höfundar forritsins eru rússneskir og í Bandaríkjunum er algengt að gera sér grýlu úr öllu rússnesku. Nú síðast hefur Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild bandaríska þingsins, farið fram á að Alríkislögreglan rannsaki appið.  

Myndirnar greiðsla fyrir notkun appsins

„Það þarf að vita af því að maður gefur fyrirtækinu myndina sína og hefur enga stjórn á því hvað það gerir við hana. Það er látið í skiptum fyrir þjónustuna sem veitt er,“ segir Nicolas Arpagian, höfundur bókarinnar Cybersecurity, um FaceApp.

Myndunum er breytt á vefþjónum úti í heimi, en ekki í símanum sjálfum. Myndirnar eru sendar upp í skýið, þeim breytt og síðan sendar aftur. Það þykir ekki æskilegt með tilliti til persónuverndarsjónarmiða. En ef öll vinnslan færi fram á símanum sjálfum hefði það í för með sér að auðveldara væri að stela þeirri tækni sem FaceApp notar, það tæki lengri tíma að umbreyta myndinni og rafhlaða símanna myndi tæmast hraðar.

Því hefur verið velt upp að jafnvel þótt myndunum sé eytt af vefþjónum, eins og FaceApp segist gera innan tveggja sólarhringa eftir að mynd er hlaðið inn, sé hægt að þjálfa gervigreind til andlitsgreiningar út frá þeim upplýsingum sem verða eftir.

Í appinu eru seldar auglýsingar í gegnum auglýsingaþjónustu Google. Þær eru miðaðar sérstaklega að notendum út frá þeim upplýsingum sem appið safnar um notandann, eins og flest snjallforrit gera nú til dags.

Svipaðir skilmálar og hjá félagsmiðlum

En jafnvel þótt FaceApp þyki grunsamlegt, hefur verið bent á að samfélagsmiðlar og aðrir netrisar á borð við Facebook og Google geri nákvæmlega það sama. Nick Thompson, ritstjóri tæknitímaritsins Wired, undirstrikaði þetta í viðtali við bandaríska sjónvarpsstöð í gær.

„Það koma til nokkur persónuverndaratriði. Í fyrsta lagi að persónuverndarskilmálarnir, sem gengist er undir við að nota appið, eru afar óvenjulegir,“ segir Thompson. „Þeir heimila þeim hjá FaceApp að nota myndina eins lengi og á þann hátt sem þeir vilja og þá lystir. Það eru mikil inngrip og ekki sérlega hugnanlegir skilmálar. En hinsvegar eru þetta samskonar skilmálar og hjá mörgum félagsmiðlum.“

Í notendaskilmálum er fólk beðið um að samþykkja það að þær myndir sem appið hefur aðgang að geti verið notaðar í auglýsingum fyrir appið. Þetta er ekki einsdæmi í FaceApp. Svipaða klausu má til dæmis finna í skilmálum Twitter.