Fá útborgað með hlátrasköllum í Raggagarði

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Fá útborgað með hlátrasköllum í Raggagarði

17.12.2019 - 07:30

Höfundar

„Við fáum regluglega útborgað, við hjónin, þegar við heyrum hlátrasköllin, bæði í börnum og fullorðnum. Það eru bestu launin sem er hægt að hugsa sér,“ segir Vilborg Arnarsdóttir sem hefur í nær fimmtán ár unnið að uppbyggingu Raggagarðs í Súðavík.

Garðurinn var opnaður í ágúst 2005 og á því fimmtán ára afmæli næsta sumar. „Ég gekk með þessa hugmynd ansi lengi en svo eftir að sonur minn dó, Ragnar Freyr Vestfjörð, þá ákvað ég að ef ég færi af stað með þetta þá ætli ég að eyða tímanum sem ég hefði annars átt með honum í þennan garð,“ segir Vilborg, sem er jafnan kölluð Bogga.

Fyrst um sinn var garðurinn fjármagnaður, til dæmis, með kleinubakstri. Bogga bakaði 3,8 tonn af kleinum á meðan hún bjó í Súðavík. Þá hefur garðurinn fengið styrki víðs vegar að og því vaxið smám saman undir hlíðinni ofan við þorpið.

Bogga býr nú á Akureyri en kemur hvert sumar vestur, ásamt Halldóri manni sínum, til að taka til hendinni. Þegar búið verður að malbika bílastæðið næsta sumar áætla hjónin að garðurinn verði, svo til, tilbúinn.