Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá lögregluaðstoð við að lóga ólöglega innfluttum dýrum

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp þar sem Matvælastofnun er gefin heimild til að lóga dýrum sem hafa verið flutt ólöglega til landsins og fá til þess aðstoð lögreglu, sé þess þörf. Hið sama gildir um innflutt dýr sem sleppa áður en þau hafa lokið fullri sóttkví og fengið vottun.

Hafi smitvörnum ekki verið ógnað, hefur Matvælastofnun samkvæmt frumvarpinu þó heimild til að senda dýrin úr landi í stað þess að lóga þeim. Þetta ákvæði er tilslökun frá núgildandi lögum, þar sem kveðið er á að þeim dýrum skuli tafarlaust lógað sem flutt eru inn ólöglega eða sleppa úr haldi áður en þau hljóta vottun.

Matvælastofnun, sem hefur eftirlit með innflutningi dýra, fær einnig heimild til að fella dýr í sóttvarnar- eða einangrunarstöð komi þar upp rökstuddur grunur um alvarlegan smitsjúkdóm.

Matvælastofnun verður jafnframt veitt heimild til þess að kalla til lögreglu fari eigandi eða sá sem rekur einangrunarstöð ekki tilmælum Matvælastofnunar. Í greinargerð með frumvarpinu segir að í gildandi lögum hafi Matvælastofnun ekki heimild til að kalla eftir aðstoð lögreglu í aðgerðum sínum. Það hafi komið sér illa í tilteknum málum og geti stefnt dýraheilbrigði í landinu í hættu. 

 

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir