Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá leiðsöguhund í 80 ára afmælisgjöf

19.08.2019 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: 360° - ja.is
Blindrafélagið er áttatíu ára í dag. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, styrkti félagið í tilefni dagsins um þrjár milljónir, eða fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi.

Blindrafélagið hefur unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Með framlaginu vildi ráðherra flýta framvindu leiðsöguhundaverkefnis Blindrafélagsins. Þá ætlar hann að stofna sérstakan samráðshóp sem vinni að framþróun verkefnisins, segir í tilkynningu félagsmálaráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins. 

Ráðherra veitti félaginu styrkinn við afmælisathöfn Blindrafélagsins á  Hilton Reykjavík Nordica í dag. 

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, vinnur að hagsmuna- og félagsmálum blindra og sjónskertra, rekur Blindravinnustofuna og veitir margvíslega þjónustu, fræðslu og jafningjastuðning. Í tilefni áttatíu ára afmælis félagsins verður Blindrafélagið sérstakur heiðursgestur Reykjavíkurborgar á Menningarnótt og stendur fyrir viðamikilli dagskrá í Tjarnarsal Ráðhússins.