Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í kvöldfréttum að úrræðin sem kveðið er á um í frumvarpinu séu grundvallaratriði í að brúa bilið fyrir atvinnulífið og launþega meðan COVID-19 gengur yfir. Samkvæmt því getur atvinnuleysistryggingasjóður getur greitt allt að 75 prósent af launum fólks ef starfshlutfallið er minnkað vegna afleiðinga heimsfaraldursins.
„Við erum líka að tryggja tekjulægsta hópinn,“ sagði Ásmundur Einar. Hann vísaði þar til þess að laun undir 400 þúsund krónum skerðast ekki. Áður var gert ráð fyrir að samanlagðar greiðslur atvinnurekanda og atvinnuleysistrygginga yrði að hámarki 80 prósent af fullum tekjum fólks síðustu mánuði. Það hlutfall hefur verið hækkað í 90 prósent og gildir ekki fyrir lægstu tekjurnar. Að auki hafa sameiginlegar hámarksgreiðslur verið hækkaðar úr 650 þúsundum í 700 þúsund krónur.
„Með þessu teljum við að við getum náð til miklu fleiri fyrirtækja, miklu fleira fólks á vinnumarkaði. Við hvetjum fyrirtækin til að nýta sér þetta,“ sagði Ásmundur Einar. „Við ætlum í gegnum þennan skafl í sameiningu.“
Ásmundur sagði að kostnaðurinn kynni að vera á bilinu tólf til 20 milljarðar króna.