Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá full laun upp að 400 þúsund krónum

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Fólk með tekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði getur notið fullra launa þótt starfshlutfall þess sé lækkað um allt að 75 prósent. Þetta er meðal breytinga sem hafa verið gerðar á frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði vegna COVID-19. Samanlagðar hámarksgreiðslur frá atvinnurekanda og úr atvinnuleysistryggingsjóði verða 700 þúsund krónur og námsmenn geta átt rétt á atvinnuleysisbótum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í kvöldfréttum að úrræðin sem kveðið er á um í frumvarpinu séu grundvallaratriði í að brúa bilið fyrir atvinnulífið og launþega meðan COVID-19 gengur yfir. Samkvæmt því getur atvinnuleysistryggingasjóður getur greitt allt að 75 prósent af launum fólks ef starfshlutfallið er minnkað vegna afleiðinga heimsfaraldursins.

„Við erum líka að tryggja tekjulægsta hópinn,“ sagði Ásmundur Einar. Hann vísaði þar til þess að laun undir 400 þúsund krónum skerðast ekki. Áður var gert ráð fyrir að samanlagðar greiðslur atvinnurekanda og atvinnuleysistrygginga yrði að hámarki 80 prósent af fullum tekjum fólks síðustu mánuði. Það hlutfall hefur verið hækkað í 90 prósent og gildir ekki fyrir lægstu tekjurnar. Að auki hafa sameiginlegar hámarksgreiðslur verið hækkaðar úr 650 þúsundum í 700 þúsund krónur.

„Með þessu teljum við að við getum náð til miklu fleiri fyrirtækja, miklu fleira fólks á vinnumarkaði. Við hvetjum fyrirtækin til að nýta sér þetta,“ sagði Ásmundur Einar. „Við ætlum í gegnum þennan skafl í sameiningu.“

Ásmundur sagði að kostnaðurinn kynni að vera á bilinu tólf til 20 milljarðar króna.

Mynd með færslu
 Mynd: Wiki commons

Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við fólk vegna samdráttar í atvinnulífi af völdum COVID-19 heimsfaraldursins. Það veitir fólki rétt á greiðslum úr atvinnuleysistryggingasvæði ef starfshlutfall er lækkað um 20 til 75 prósent. Greiðslur frá hinu opinbera miðast við skerðingu á starfshlutfalli. Samanlagðar greiðslur starfsmanna geta ekki orðið hærri en 700 þúsund krónur á mánuði og ekki hærra hlutfall en 90 prósent af launum starfsmanns næstu þrjá mánuði á undan. Á því síðarnefnda er sú undantekning að fólk með laun undir 400 þúsund krónur fær 100 prósent meðallauna síðustu mánaða greidd.

Atvinnurekandi má ekki krefjast vinnuframlags af hálfu starfsmanns umfram það starfshlutfall sem hann greiðir laun fyrir.

Þótt svo fólk fái greiddan hluta launa sinna úr atvinnuleysistryggingasjóði með þessum hætti skerðir það ekki rétt fólks til atvinnuleysisbóta ef það missir vinnuna.