Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá að vera í friði með sín ráðuneyti

03.11.2019 - 16:57
Mynd: Svona fólk / Svona fólk
Nú eru um tvö ár frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð. Stjórnmálafræðingur segir að í ljósi þess hvaða flokkar skipi ríkisstjórnina, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, hafi tekist vel til. Það sé mögulega vegna þess að hver ráðherra fái að vera í friði með eigið ráðuneyti.

Baldur var viðmælandi Sigmars Guðmundssonar í Silfrinu í dag ásamt Árna Helgasyni lögfræðingi og borgarfulltrúunum Hildi Björnsdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur. Mbl.is greindi frá.

Fá að reka stefnu síns flokks án mikilla afskipta

Ríkisstjórnin hafi náð að takast á við ýmis erfið mál, svo sem lífskjarasamninginn, þriðja orkupakkann og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu um lögmæti skipunar í Landsrétt. 

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði að Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi tekist að leiða stjórnina vel. „Kannski nær hún þessari samstöðu með því að einstaka ráðherrar fá að vera í friði með eigin ráðuneyti og reka stefnu síns flokks þar og án kannski mikillar afskiptasemi annarra. Það virðist vera lausnin á mismunandi stefnum flokkanna.“

Flokkarnir í klemmu

Hann telji þó að flokkarnir séu í klípu og fái hugsanlega að finna fyrir því í næstu kosningum. Til dæmis sé Sjálfstæðisflokkurinn klemmdur á milli annars vegar nýs frjálslynds flokks, Viðreisnar, og íhaldssamari flokks, Miðflokksins. Þessir flokkar kroppi í fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Miðflokkurinn nái líka til sín fylgi frá Framsóknarflokknum. Þá séu Vinstri græn klemmd á milli frjálslyndari mið- og vinstriflokka jafnaðarmanna og Pírata og svo nýs sósíalistaflokks sem gæti náð árangri í næstu kosningum, segir hann.  

Stjórn stöðugleika

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi sagði að ríkisstjórnin væri stjórn stöðugleika eftir ákveðið tímabil óstöðugleika. Sigurborg Ósk sagði að ríkisstjórnin hefði gert ýmislegt jákvætt og það hafi sýnt sig að ríkisstjórnin ætli að standa fyrir uppbyggingu innviða.

Hins vegar þar sem ákveðin íhaldssemi sameini ríkisstjórnarflokkanna sé ljóst að engar stórar kerfisbreytingar verði gerðar á þessu kjörtímabili, svo sem vegna loftslagsmála sem krefjist heildarendurskoðunar á kerfum samfélagsins og nýrrar stjórnarskrár.

Vilji viðhalda óbreyttu ástandi

Baldur sagði núverandi ríkisstjórn myndaða til að standa vörð um það kerfi sem þessir ríkisstjórnarflokkar hefðu komið á í samfélaginu.

„Þessir þrír gömlu valdaflokkar, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, mynda stjórn til þess að verja það kerfi til dæmis eins og fiskveiðistjórnunarkerfið, landbúnaðarkerfið, núverandi stjórnarskrá, að halda óbreyttu heilbrigðiskerfi, óbreyttu menntakerfi. Þetta er svona um stöðugleika eða að minnsta kosti óbreytt ástand.“