
Fá að rukka viðbótargjöld af pökkum frá Kína
Póstverslun frá Kína hefur aukist verulega eftir að fríverslunarsamningur var gerður milli landanna. Nú stefnir í þá breytingu að neytendur greiða ekki aðeins uppsett verð fyrir vöru og póstflutning annars vegar og fyrir tollafgreiðslu hérlendis hins vegar, heldur bætist við póstburðargjöld sem Pósturinn innheimtir af viðtakendum pakkanna. Þau gjöld eiga að duga fyrir kostnaði og hæfilegum hagnaði. Þetta er gert vegna þess að Kína er í flokki efnaminni landa á lista alþjóða póstmálasambandsins sem fá afslátt af póstburðargjöldum ríkari landa.
Á hraðferð gegnum þingið
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur frumvarpið og lagði það fram á Alþingi 20. mars. 1. apríl fór fyrsta umræða um frumvarpið fram og stóð í þrettán mínútur. Þaðan fór frumvarpið til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Nefndin sendi út umsagnarbeiðnir til 36 aðila 3. apríl og var þá miðað við að umsagnir bærust fljótlega eftir páska. Tveimur dögum síðar var fresturinn svo styttur þannig að nú þurfa umsagnir að berast ekki síðar en á þriðjudag, en þá kann að vera að nefndin afgreiði frumvarpið frá sér.
Brugðist við tapi Íslandspósts
Aðeins tveir þingmenn tóku til máls í fyrstu umræðu um frumvarpið, það voru ráðherrann sem flutti málið og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigurður Ingi sagði að með frumvarpinu væri brugðist við tapi Íslandspósts af pakkasendingum frá útlöndum. Póstburðargjöldin sem Pósturinn fær greidd eru lægri en kostnaðurinn við að koma pökkunum til skila. Sigurður Ingi sagði að frumvarpið hefði verið unnið hratt og hefði til dæmis ekki farið í samráðsgátt stjórnvalda. Hann sagði að markmiðið væri það að takmarka tjón ríkisins til lengri tíma. Við núverandi ástand kynni Íslandspóstur að krefjast greiðslu úr opinberum sjóðum til að mæta tapi af póstsendingunum.
Erlend póstverslun niðurgreidd
„Eins og staðan er í dag þá má halda því fram að pósturinn með eigandann ríkissjóð sem bakhjarl sé að niðurgreiða erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun. Það er eitthvað sem ég held að við séum öll sammála um hér inni að sé ekki eðlilegt,“ sagði Sigurður Ingi.
Spurningar Helgu Völu sneru að því hvers vegna þessi breyting væri lögð til í sérstöku frumvarpi en ekki í heildarendurskoðun póstlaga sem nú liggur fyrir þinginu. „Maður veltir fyrir sér með samráðið líka, hvort það var haft eitthvað samráð við einhvern inni í ráðuneytinu, til dæmis við þá sem tala fyrir neytendur á Íslandi,“ sagði Helga Vala.
Ráðherra vísaði meðal annars til þess að vinna yrði málið sem hraðast svo frumvarpið yrði sem fyrst að lögum.
Borgað með pökkum í hverjum mánuði
Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir að samstaða sé í nefndinni um að afgreiða frumvarpið nokkuð hratt. Það gæti jafnvel verið afgreitt til annarrar umræðu á næsta fundi nefndarinnar á þriðjudag. Nefndarmenn ákváðu því að stytta umsagnarfrest til að taka mið af því en þó gæti verið að hann verði lengdur á ný, segir Jón.
Nefndin ræddi málið á fundi sínum í gær og hefur talað við fulltrúa Íslandspósts, Pósts- og fjarskiptastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Ekki er búið að ræða við Neytendasamtökin.
„Það er verið að borga með því í hverjum mánuði,“ segir Jón um sendingar frá Kína. Samkvæmt reglum alþjóðlega póstsambandsins fá þróunarlönd afslátt af póstburðargjöldum og fellur Kína þar undir. „Það er auðvitað óeðlilegt að við séum að niðurgreiða viðskipti sem þessi,“ segir Jón. Hann segir fordæmi fyrir því erlendis frá að brugðist sé við þessari þróun.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að samtökin séu að ganga frá umsögn um frumvarpið. Hún verði send þingnefndinni á mánudag eða þriðjudag.