Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eyjamenn segja Menntamálastofnun hafa brugðist

31.03.2018 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fræðsluráð Vestmannaeyja gagnrýnir Menntamálastofnun og spyr hvernig stofnunin sjái fyrir sér að byggja upp trúverðugleika samræmdra prófa í framtíðinni. Í nokkuð harðorðri bókun, sem samþykkt var á fundi ráðsins í vikunni, er Menntamálastofnun sögð hafa brugðist stjórnendum, kennurum og nemendum Grunnskóla Vestmannaeyja með ákvörðun sinni um að nemendum væri í sjálfsvald sett hvort þeir taki prófin í apríl eða á næsta hausti.

Ekki tókst að leggja fyrir samræmd próf í íslensku og ensku fyrir nemendur í 9. bekk í byrjun þessa mánaðar þar sem rafræna prófakerfið reyndist ekki þola álagið þegar á reyndi.

Framkvæmd prófanna var gagnrýnd og fræðsluráð Vestmannaeyja lýsti á fundi sínum í vikunni yfir miklum vonbrigðum með þau vandamál sem komu upp við fyrirlögn prófanna. 

Það væri þyngra en tárum taki þegar sú stofnun sem ætti að ryðja brautina, setja viðmiðin og leiða faglegt menntastarf brygðist ítrekað. „Samræmd könnunarpróf hafa þurft að þola sinn skerf af óvæginni gagnrýni og efasemdum undanfarin ár og í Vestmannaeyjum hefur t.a.m. verið ráðist markvisst í að byggja upp tiltrú kennara, foreldra og ekki síst nemenda á mikilvægi samræmdra prófa og nú síðustu ár hafa loksins verið að sjást merki um breytt hugarfar gagnvart prófunum. Sú vinna hefur nú þegar beðið skaða,“ segir í bókun ráðsins.

Þá gagnrýnir ráðið þá ákvörðun að það sé nemendum í sjálfsvald sett hvort þeir taki prófin í næsta mánuði eða næsta haust. „Slík stjórnvaldsákvörðun Menntamálastofnunar leiðir vissulega af sér aukin útgjöld grunnskóla sem þurfa að leggja prófin fyrir í annað sinn vegna mistaka Menntamálastofnunar.“ Ekkert fjármagn fylgi þessari ákvörðun og það séu því grunnskólar og sveitarfélög sem þurfi að bera fjárhagslegan og faglegan skaða af þessum mistökum. 

Fræðsluráðið hrósar starfsfólki grunnskóla Vestmannaeyja og nemendum fyrir umburðarlyndið, þolinmæðina og snarræðið sem þeir hafi sýnt við þessar erfiðu aðstæður og beinir fjórum spurningum til Menntamálastofnunar. Þær snúa meðal annars að því hvernig eigi að koma til móts við skólann varðandi kostnað við fyrirlagnir seinni prófanna og hvernig Menntamálastofnun sjái fyrir sér að byggja upp trúverðugleika samræmdra prófa í framtíðinni.