Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Eyjafjallajökull í dvala?

30.07.2010 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekkert bendir til þess að gosið í Eyjafjallajökli taki sig upp að nýju. Í fyrri gosum hefur fjallið tekið sér nokkurra vikna hlé og svo gosið aftur áður en það fer í dvala. Þetta segir Ármann Höskuldsson, jarðvísindamaður, sem unnið hefur að því að mæla magn gosefnis úr frá Eyjafjallajökli.

Hópur vísindamanna við Jarðvísindastofnun hefur undanfarna tvo mánuði unnið að því að mæla magn gosefna úr eldgosinu í Eyjafjallajökli sem hófst 14. apríl síðastliðinn. Ármann Höskuldsson, jarðvísindamaður, segir rannsóknina væntanlega taka mánuði og jafnvel ár, og því gæti orðið bið á niðurstöðum. Þó séu komnar bráðabirgðaniðurstöður sem bendi til þess að magn fastra gosefna sem féllu hér á landi séu um það bil 140 milljónir rúmmetra.

Í Gígsjökulslóni séu allt að 25 milljónir rúmmetra, mestmegnis gjóska. Hraunið sem hafi runnið sé í kringum 25 milljónir rúmmetra, álíka mikið og hraunið sem kom upp á Fimmvörðuhálsi. Hann segir óljóst hversu mikil gjóska hafi fallið utan Íslands, bráðabirgðartölur bendi þó til þess að það sé allt frá fjórðungi að einum þriðja hluta gjóskunnar.

Ármann segir gosið í Eyjafjallajökli ekki vera stórgos, það hafi þó verið verulegt. Yfirleitt séu eldgos ekki kölluð stórgos fyrr en magn gosefna verður meira en einn rúmkílómetri. Dæmi um gos af þeirri stærðargráðu síðustu hundrað árin séu Surtseyjargos og Kötlugos.

Vísindamennirnir vinna að rannsókninni í samvinnu við Þorvald Þórðarson, prófessor við Edinborgarháskóla, og bindur Ármann vonir við að hægt verði að meta umfang gjósku í samvinnu við erlenda jarðvísindamenn, til að afla upplýsinga um hversu mikil aska féll utan Íslands. Það hjálpi til við að fá skýrari mynd af heildarmagni fastra efna úr gosinu við Eyjafjallajökul. Hann segir ekkert benda til þess að gosið taki sig upp aftur því sé lokið að sinni.