Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Eygló hafnar ósk fjármálaráðuneytisins

16.05.2015 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Eygló Harðardóttir, húsnæðismálaráðherra, ætlar að leggja tvö húsnæðisfrumvörp sín fram óbreytt náist ekki samkomulag um annað. Hún hefur hafnað ósk fjármálaráðuneytisins um að afturkalla annað þeirra og hafnar fullyrðingum ráðuneytisins um að greining á kostnaði við hitt frumvarpið sé ekki nægileg.

Fjármálaráðuneytið sagði í tilkynningu í gær að Eygló hefði fallið frá því í lok síðasta mánaðar að leggja fram annað af tveimur frumvörpum um húsnæðismál sem fjármálaráðuneytið hefur verið að kostnaðarmeta. Þetta kom fram í Speglinum í gær.

Fjármálaráðuneytið sagði að ráðherra hefði fallið frá því að leggja frumvarpið fram eftir að ýmis álitamál komu upp og ráðuneytið taldi ósennilegt að annað frumvarp yrði lagt fram á vorþingi.

Eygló brást við þessari yfirlýsingu skömmu seinna. Þar kom fram að að hún hafi ekki fallið frá áformum sínum um að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði. Fréttir fjölmiðla um að frumvarpið hafi verið dregið til baka eigi ekki við rök að styðjast.

Eygló sendi raunar fjármálaráðuneytinu orkustangir  í byrjun apríl - ráðherrann greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni.  Þar sagðist hún vona að orkubitarnir yrðu til að hjálpa starfsfólki fjármálaráðuneytisins við að „meta áhrifin á ríkissjóð og þjóðarbúskap til að hjálpa allra fátækustu að fá öruggt húsaskól.“ 

Annað frumvarpið er um breytt kerfi húsaleigubóta - hitt um stofnstyrki til félagslegra leiguíbúða. „Fjármálaráðuneytið hefur óskað eftir því að við afturköllum það frumvarp - við höfum hafnað því. Við höfum hins vegar sagt að við séum reiðubúin til að gera breytingar á því til að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Eygló í samtali við fréttastofu.

Ekki sé komin niðurstaða í þær viðræður.  Síðan skipti máli hvernig samið verður á vinnumarkaði og hver kostnaður ríkissjóðs verði af því. „En af að við getum ekki náð samkomulagi þá mun ég leggja þessi frumvörp fram óbreytt. Það er mitt að fara með húsnæðismálin og ég óska eftir því að fjármálaráðuneytið kostnaðarmeti þau - það er þeirra hlutverk. Og svo er það náttúrlega ríkisstjórnarinnar að taka afstöðu til þeirra og svo þingsins.“

Fjármálaráðuneytið hefur lagt fram drög að kostnaðarmati húsnæðisbótafrumvarpsins, segir Eygló. „Við bíðum eftir því að fá endanlegt kostnaðarmat svo við getum lagt það fyrir ríkisstjórn.“ Eygló telur rétt að þegar endanlegt kostnaðarmat liggur fyrir verði það kynnt þá. „Þarna er verið að tala um umtalsverða fjármuni til viðbótar til stuðnings við leigjendur í gegnum húsnæðisbætur.“

Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttastofu í gær kemur fram að mjög hafi skort á talnalegar greinar á áhrifum húsnæðisbótafrumvarpsins. Var undirbúningsvinna velferðarráðuneytisins ekki næg?  „Ég hafna þessu algjörlega - þær upplýsingar, sem við erum að byggja á og fjármálaráðuneytið, eru meðal annars upplýsingar frá Reykjavíkurborg.“

Húsaleigubætur hafi verið hjá sveitarfélögunum og heildstæðar upplýsingar um stöðu þeirra sem þiggja húsnæðisbætur hafi ekki legið fyrir, segir Eygló. Hún segist vonast til að geta lagt húsnæðisbótafrumvarpið fram á þessu þingi. „ Ég hef hins vegar líka sagt það að ef það gengur ekki eftir þá kemur annað þing og þessi mál munu halda áfram að vera mín forgangsmál.“

En kalt mat, verður þetta fyrr en í haust? „Það var áætluð gildistaka um áramótin á þessum frumvörpum. Vonandi mun það bara ganga eftir,“ segir Eygló. Húsaleigubætur hafi verið hjá sveitarfélögunum og heildstæðar upplýsingar um stöðu þeirra sem þiggja húsnæðisbætur hafi ekki legið fyrir. Eygló segist vonast til að geta lagt húsnæðisbótafrumvarpið fram á þessu þingi.