Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eyddi tíu sinnum meira af eigin fé en Guðni

26.09.2016 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kostnaður við forsetaframboð Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, nam tæplega 28 milljónum króna. Sjálfur greiddi Davíð ríflega 11 milljónir króna vegna forsetaframboðs síns í sumar. Það er tíu sinnum meira en Guðni Th. Jóhannesson greiddi sjálfur vegna síns framboðs, en eigið framlag hans var ríflega ein milljón króna.

Framlög fyrirtækja til framboðs Davíðs námu ríflega átta milljónum króna og voru framlög einstaklinga álíka mikil. Heildarkostnaður frambjóðenda árið 2012 nam rúmlega 27 milljónum króna. Framboð Davíðs var því dýrara en öll framboðin fyrir fjórum árum.

Ríkisendurskoðandi birti í dag útdrátt úr uppgjöri Davíðs vegna framboðs hans. Útdráttur úr uppgjöri Guðna var birtur fyrr í mánuðinum. Fjöldi fyrirtækja studdi framboð Davíðs. Má þar nefna Ísfélag Vestmannaeyja, Ramma, Lýsi og Brekkuhús. Öll þessi félög eiga það sameiginlegt að hafa styrkt Davíð um hámarksframlög og eiga hlut í Þórsmörk ehf., sem á nær allt hlutafé í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Þá má nefna Kaupfélag Skagfirðinga en bæði félagið og kaupfélagsstjóri þess, Þórólfur Gíslason, styrktu Davíð um 400 þúsund krónur. 

Framboði Davíðs bárust framlög frá 55 einstaklingum. Meðal þeirra voru Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, Ástríður Thorarensen, eiginkona Davíðs, og Sigurbjörn Magnússon, lögmaður og stjórnarformaður Morgunblaðsins. 

 

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV