Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Eve Online á MoMA safninu

Mynd með færslu
 Mynd:

Eve Online á MoMA safninu

29.11.2012 - 20:20
Nýlistasafnið í New York, betur þekkt sem MoMA, ætlar að opna sýningu með tölvuleikjum sem þykja sýna framúrskarandi hönnun og íslenski leikurinn Eve Online er meðal þeirra.

Leikurinn er framleiddur af hugbúnaðarfyrirtækinu CCP og kemst á blað með ekki ómerkilegri leikjum en Tetris, Pac-man, Sim City og The Sims. MoMA safnið hýsir bæði hönnun og nútímalist og þar eru verk eftir listamenn á borð við Jackson Pollock, Andy Warhol og Vincent van Gogh.

Til að byrja með verða 14 leikir til sýnis. Torfi Frans Ólafsson, listrænn stjórnandi hjá CCP, segir að safnið hafi valið leiki sem þyki afgerandi í gagnvirkri hönnun og það sé mikill heiður að komast á þennan lista. Eve Online hafi verið valinn vegna þess að þar búi meira en 350 þúsund manns í tilbúnum heimi sem líki eftir vísindaskáldsögu en sé um leið ótrúlega raunverulegur og með virkt hagkerfi.

Þar fara fram viðskipti, iðnaður, námugröftur, pólitík og síðast ekki síst stríð. Allt þykir þetta skapa merkilega gagnvirka heild sem hefur gefið af sér sögur og atburðarás sem jafnvel hönnuðirnir gátu ekki séð fyrir sér.

Þá þykir útlit og grafísk hönnun leiksins sérstaklega afgerandi. CCP vinnur nú að því að búa til sýningareintak af leiknum en Torfi segir að hann sé alltof flókinn til að hægt sé að stilla upp tölvu og leyfa gestum og gangandi að prófa sig áfram. Þess í stað verður einblínt á atburðarás leiksins einn góðan veðurdag í desember.

Allir atburðir þann dag verða skrásettir nákvæmlega og leikmönnum boðið að taka upp sínar eigin upplifanir í leiknum. Allt verður þetta svo sett saman í heildarmynd sem á að gefa sýningargestum innsýn í það sem gerir leikinn einstakan.