Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Europol leitar upplýsinga um bol

Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Europol reiðir sig á hjálp almennings við að afla upplýsinga um bol. Upplýsingarnar gætu bjargað lífi barns, segir á Facebook-síðu Europol. Meðal annars er leitað upplýsinga um hvar hægt er að kaupa þennan tiltekna bol og hvar í heiminum fólk klæðist honum.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að Europol stóli oft á aðstoð almennings við lausn sakamála og leiti reglulega upplýsinga í tengslum við þau.

Fyrr í sumar handtók Europol sjötíu manns í átján löndum í viðamiklum aðgerðum gegn barnamansali. Yfir tvö hundruð þolendur mansals, þar af um fimmtíu börn fundust við aðgerðirnar. Þá tók stofnunin þátt í rannsókn á finnskum glæpasamtökum sem stunduðu kynlífsþrælkun, peningaþvætti og ráku vændissíður á Norðurlöndum. Samtökin voru upprætt eftir umfangsmikla rannsókn lögreglu í fjórtán löndum.