Alheimstungumálið Esperanto ómaði um ganga Hörpu í dag. Tungumálið er rúmlega aldargamalt og er kennt í 150 háskólum og menntastofnunum víða um heim. Hannes Högni Vilhjálmsson, formaður íslenska Esperantosambandsins segir mikilvægan boðskap fylgja tungumálinu. „Fólk hefur ákveðna framtíðarsýn um jafnrétti og frið, má kalla það pólitík. Ennþá mannlegra að manni finnst í þeim skilaboðum, nær út fyrir alla pólitík líka,“ segir hann.
„Það er engin óregla í tungumálinu, maður lærir ekki neinar óreglulegar sagnir eða slíkt. Þetta er allt saman mjög lógískt. Hann notaði orðstofna sem voru algengir í mörgum tungumálum í kringum hann. Flestir orðstofnarnir í esperanto eru okkur flestum kunnigir nú þegar,“ segir Hannes Högni.
Gestir geta sótt fyrirlestra um allt milli himins og jarðar. Meðal annars um sögu Íslands og Eirík rauða. Þá var hægt að kaupa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness og Njálssögu á esperanto. Þórbergur Þórðarson, rithöfundur er frægasti esperatisti landsins. Í tilefni heimsþingsins er gefin út þýðing hans á íslenskum þjóðsögum á esperantó, meðal annars Galdralofti og Djáknanum á Myrká.