Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

ESB málið klárast varla fyrir þinglok

30.04.2014 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir afar ólíklegt að þingið afgreiði afturköllun aðildarumsóknar að Evrópusambandinu á þessu þingi. Ríflega 200 athugasemdir bárust við þingsályktanir um málið.

Utanríkismálanefnd Alþingis fjallar nú um þrjár þingsályktunartillögur um málið. Í fyrsta lagi tillögu utanríkisráðherra um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði afturkölluð og svo tillögu Pírata um ráðgefandi atkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna og síðan tillögu Vinstri grænna um að formlegt hlé verði gert á viðræðunum.

Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, á ekki von á því að málið klárist fyrir þinglok í næsta mánuði. „Það liggur fyrir að það er nokkur umfjöllun eftir í utanríkisnefnd um þessar tillögur og það liggur líka fyrir að ef utanríkisnefnd lyki umfjöllun sinni þá mætti búast við talsverðum umræðum í þinginu. Ég hef nú bara bent á þá staðreynd að dagarnir fram til 16. maí þegar þingið á að fara í frí eru afar fáir, þannig að ég myndi telja eins og staðan er núna þá sér frekar ólíklegt að umfjöllun um þessi mál ljúki núna í vor.“

Birgir segir möguleika á að þingið komi saman í júní, þótt ekkert slíkt hafi verið ákveðið, en gerist það verði væntanlega fjallað um tillögurnar. Utanríkismálanefnd auglýsti eftir umsögunum um tillögurnar þrjár, en sami háttur var hafður á árið 2009 þegar ákveðið var að sækja um aðild að ESB. Samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis bárust alls 214 umsagnir, langflestar um tillögu um afturköllun, eða 167.

„Það eru all margar athugasemdir eins og venjan er þegar stór mál eru í umfjöllun í þinginu, við erum að tala um, einhvers staðar geri ég ráð fyrir, 60-70 alvöru  umsagnir.“

Með því á Birgir við ítarlegar og rökstuddar umsagnir, en í öðrum lýsi menn einfaldlega skoðun sinn eða hvatningu um að mál verði leidd til lykta með einhverjum hætti.