Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

ESB hættir ekki á þriðju höfnunina

06.06.2013 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Það virðist litlu skipta hvort Íslendingar vilja ljúka aðildarviðræðum eða ekki, sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti í þingsetningarræðu Alþingis. „Mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum."

Ólafur Ragnar sagði að ríflegur meirihluti Alþingis væri andvígur aðild að Evrópusambandinu. Það væri skiljanlegt að Alþingi hefði 2009, við þáverandi aðstæður, séð kosti við að kanna aðild að Evrópusambandinu. Nú blasti breytt mynd við, Evrópa væri verr stödd en ríki Ameríku og Asíu. Einnig hefðu aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins staðið lengur að aðildarviðræður annarra norrænna ríkja á sínum tíma. Hann sagðist sannfærður um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar ýmissa forráðamanna Evrópusambandsins hefðu þeir ekki raunverulegan áhuga á að semja við Íslendinga. Hann vísaði til þess að Norðmenn hefðu tvívegis hafnað ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og sagði forsvarsmenn sambandsins ekki vilja eiga þriðju höfnunina yfir höfði sér.

Ólafur Ragnar sagði mikla möguleika fólgna í breyttum samskiptum og áherslum þjóða. Hann lagði sérstaka áherslu á norðurslóðamál. „Norðrið, heimaslóðir okkar, nú vegvísir um örlög allra jarðarbúa."

Friði komið á á ný
Ólafur Ragnar minntist í upphafi ræðu sinnar þeirra tíma þegar eldar brunnu á Alþingi og víggirðingar lögreglumanna hefðu skipt sköpum um öryggi þingmanna. Hann sagði þetta ábendingu um að ekki mætti gleyma því hversu mikilvægt væri að traust ríkti milli þings og þjóðar. Eitt mikilvægasta verk síðasta kjörtímabils hefði verið að koma aftur á friði í íslensku samfélagi. Forsetinn þakkaði fráfarandi ríkisstjórn og Alþingi. Hann sagði að þó ýmis verk hefðu verið umdeild sýndu nýafstaðnar þingkosningar og þingsetningin nú að lýðræðið og stjórnkerfið hefði staðist þá eldraun sem það hefði gengið í gegnum.

Forsetinn sagði að lýðveldisstjórnarskráin hefði staðist eldraun hrunsins og verið farvegur breytinga. Hann sagði að þó bæta mætti hana enn, svo sem með þjóðaratkvæðagreiðslur og aukið sjálfstæði dómstóla hefði hún verið traustur rammi um þá lýðræðisskipun sem Íslendingar hefðu kosið sér.