Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„ESB á ekkert að misskilja þetta“

18.03.2015 - 21:24
Mynd: Kastljós / RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var mjög afdráttarlaus í Kastljósi í kvöld þar sem hann sagði að ESB ætti ekkert að misskilja ákvörðun íslenska stjórnvalda - þessu ferli væri lokið. Evrópusambandið hefði sagt að það ætlaði að taka mark á íslenskum stjórnvöldum - nú væri komið að því.

Stöð 2 hafði eftir talsmanni stækkunardeildar Evrópusambandsins að Íslendingar hefðu ekki dregið aðildarumsókn að sambandinu til baka með bréfi Gunnars Braga - bréfið hefði ekki ígildi afturköllunar aðildarumsóknar, sagði Maja Kocijancic við fréttastofu Stöðvar 2.

Gunnar Bragi var aftur á móti mjög skýr í Kastljósi í kvöld. „Við teljum að við séum ekki lengur umsóknarríki því þessu ferli er lokið af hálfu Íslands. Og það kann vel að vera að við þurfum að fara þess á leit að þeir skili okkur einhverjum pappírum. En ESB á ekkert að misskilja þetta - þeir hafa alltaf sagt að þeir taki mið og þeir taki mark á íslenskum stjórnvöldum og nú er komið að því.“

 

Gunnar Bragi segir að það hefði verið lítið mál að koma fram með svipaða þingsályktun og sumarið 2013. Hann benti á að sú ályktun hefði komist lítið áfram, hún hefði lent í samningum um þinglok og stjórnarandstaðan hefði beitt málþófi við að tefja þessa tillögu. 

Gunnar Bragi sagði að stjórnvöld hefðu alveg getað farið með þingsályktun en þeir hefðu kosið að fara leið sem þeir vonuðust til að yrði að lágmarka skaðann.  Gunnar Bragi sagði enn fremur að þetta mál hefði verið ítarlega rætt á Alþingi og stefna ríkisstjórnarinnar hefði alltaf legið fyrir. „Og það eru mörg dæmi um að ráðherrar hafi tekið ákvarðanir þar sem þeir byggja sitt mát á því verið hefur í umræðunni á þinginu.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV